Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Auðmjúk og stolt með eftirspurnina, segir Bogi Nils

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Hluthöfum í Icelandair Group fjölgar um sjö þúsund eftir hlutafjárútboðið sem lauk í gær. Listi yfir 20 stærstu hluthafa verður birtur þegar hlutabréfin verða skráð. Stærsti hluthafinn, Lífeyrissjóður verslunarmanna, tók ekki þátt. Sjö milljarða skráningu Michelle Ballarin var hafnað því ekki voru tryggingar fyrir greiðslu. 

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair er ánægður með mikla umframeftirspurn í hlutafjárútboðinu: 

„Við erum náttúrulega mjög ánægð með viðbrögðin í útboðinu og hérna hve mikið safnaðist og hversu margar áskriftirnar voru, mikil umframeftirspurn, þ.a. við erum auðmjúk og stolt yfir þessum mikla stuðningi sem á Íslandi er, já hvernig þetta tókst allt saman til.“

Hverjir eru stærstu hluthafar í Icelandair núna?

„Það á eftir að koma í ljós. Hluthafalistinn verður birtur þegar hlutabréfin verða skráð þ.a. það mun koma í ljós á næstunni.“

Er einhver stór breyting t.d. meðal tíu efstu?

„Ég get ekki tjáð mig um það. Listinn verður birtur fljótlega og þá mun þetta allt saman koma í ljós.“

Verslunarmenn og Ballarin ekki með

En af þessum stærstu, til dæmis lífeyrissjóðirnir, tóku allir þátt?

„Lífeyrissjóður verslurnarmanna hefur tilkynnt að hann tók ekki þátt þ.a. það liggur fyrir.“

Og þeir voru nú stærstir eða næststærstir fyrir?

„Þeir voru stærstir fyrir útboðið.“

Lífeyrissjóður verslunarmanna átti tæplega tólf prósenta hlut í félaginu. Bogi Nils vill ekkert segja um hvort og þá hve margir erlendir fjárfestar keyptu hlut. Hluthöfum fjölgaði um sjö þúsund í félaginu í útboðinu og verða því ellefu þúsund.

Bogi Nils vill ekki svara hvort sjö milljarða skráningu Michelle Ballarin hafi verið hafnað. Hann staðfestir að stjórnin hafi hafnað einum kaupanda bréfa því ekki hafi verið sýnt fram á nægar tryggingar fyrir greiðslu. Samkvæmt heimildum Fréttastofu mun það hafa verið Michelle Ballarin. 

Reksturinn næstur á dagskrá

„Hvað varðar fjárhagsstöðuna þá erum við búin að klára þessa endurfjármögnun og endurskipulagningu sem við erum búin að vera að vinna í í sex mánuði. Þannig að það verkefni er frá. Núna þurfum við að einbeita okkur að rekstrinum. Óvissan er klárlega ennþá mikil og miklar ferðatakmarkanir og lítil eftirspurn og við höfum búið fyrirtækið undir það að þetta gæti verið svona fram á næsta vor. En þá mun heimurinn ná einhverjum tökum á Covid ástandinu og við förum að byggja leiðakerfið upp hægt og rólega. Það er svona grunnsviðsmyndin okkar,“ segir Bogi Nils Bogason.