Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alvarleg staða í atvinnumálum í Norðurþingi

18.09.2020 - 20:18
Alvarleg staða er í atvinnumálum í Norðurþingi og atvinnuleysið það mesta á öllu Norðausturlandi. Heimamenn kalla eftir aðkomu Vinnumálastofnunar og formaður stéttarfélagsins Framsýnar segir félagið að kikna undan álagi.

Stærsta höggið í atvinnumálum í Norðurþingi varð þegar framleiðsla í verksmiðju PCC stöðvaðist og um 80 manns misstu vinnuna. Mjög slæm staða í ferðaþjónustu hefur einnig bitnað illa á atvinnulífinu.

Um 140 manns án atvinnu

„Ef við erum að horfa hér á Norðurþing þá erum við að tala um að í kringum 140 manns séu án atvinnu hér í dag,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar. Á milli 8 og 9 prósenta atvinnuleysi er spáð þegar líður á veturinn og að þá geti allt að 170 manns verið án atvinnu. Til samanburðar er nú um 5 prósenta atvinnuleysi á Norðurlandi eystra.

Ástandið einna verst á Húsavík og nágrenni

Kristán Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir atvinnuástandið dreift um allt sveitarfélagið. „Það er sennilega verst hér í kringum Húsavík vegna iðnaðarins sem hér hefur verið að byggjast upp á Bakka. En það er hátt atvinnuleysi því miður víða.“

Mikilvægt að Vinnumálastofnun opni starfsstöð á ný

Nokkrir erlendir íbúar sem misstu vinnuna hafa þegar flutt í burtu, tímabundið að minnsta kosti. Því er talið afar mikilvægt, til að forðast frekari þróun í þá átt, að Vinnumálastofnun opni á ný starfsstöð sem starfrækt var á Húsavík til 2014. Öflug þjónusta við atvinnuleitendur og náið samtal sé algert lykilatriði í svona ástandi. „Það er ofboðslega mikilvægt að við notum þau tól og tæki sem felast í svona stofnunum, eins og Vinnumálastofnun, að þau komi sterkt inn þegar svona árar,“ segir Kristán.

Starfsfólk Framsýnar að kikna undan álagi

Aðalsteinn segir eðlilega mikið leitað til Framsýnar. Þau hafi meðal annars farið af stað með vinnumiðlun - sem hann telur ekki hlutverk stéttarfélags. „Og það hefur tekist að miðla ákveðnum hópi í vinnu, en þetta er í sjálfu sér ekki okkar hlutverk. Þetta er hlutverk Vinnumálastofnunar. En við bara brugðumst við þessum mikla vanda. Það má eiginlega segja að við séum að kikna hér á okkar skrifstofu undan álagi, það er að segja í kringum það að sinna öllum þessum fjölda sem hefur misst vinnuna og er að leita upplýsinga.“