Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Akureyrarbær auglýsir rekstur Hlíðarfjalls til leigu

18.09.2020 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Hlíðarfjalls á Akureyri leitar nú að fólki sem hefur áhuga á að taka við rekstri skíðasvæðisins. Formaður stjórnarinnar segir að reksturinn hafi verið erfiður í ár. Kostnaður bæjarins við skíðasvæðið síðasta skíðavetur var tæpar tvö hundruð milljónir króna.

„Okkur fannst bara rétti tíminn kannski núna"

Bæjarráð Akureyrar samþykkti í gær að fela stjórn Hlíðarfjalls að skoða möguleika á útvistun starfseminnar. Halla Björk Reynisdóttir er forseti bæjarstjórnar og formaður stjórnar Hlíðarfjalls.

„Það hefur lengi verið í skoðun að fá aðra aðila að rekstri Hlíðarfjalls með okkur, annað hvort önnur sveitarfélög eða einkaaðila. Okkur fannst bara rétti tíminn kannski núna, þar sem við erum að skoða svona alla parta í rekstri sveitarfélagsins, að kanna hvort það sé einhver áhugasamur þarna úti sem væri tilbúinn að taka þetta að sér og kannski gera meira en við gætum gert," segir Halla. 

Hefur reksturinn verið þungur, síðustu ár?

„Þetta er náttúrlega töluverður kostnaður fyrir aðalsjóð á hverju ári og auðvitað kom COVID-19 faraldurinn þungt niður á Hlíðarfjalli eins og öðrum skíðasvæðum. Já, já, þetta er heilmikill rekstur en það er ekki þannig að við séum að hætt að reka Hlíðarfjall eða neitt slíkt."

Mikill kostnaður síðustu ár

Kostnaður bæjarins af rekstri skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli á þessu ári er að sögn Höllu um 190 milljónir króna. Þá keypti bærinn nýja stólalyftu af hagsmunasmtökunum Vinum Hlíðarfjalls í vetur fyrir rúmlega 340 milljónir. Upphaflega stóð til að samtökin, sem fengu lyftuna að hluta til að gjöf frá Samherja, myndu leigja bænum mannvirkið næstu 15 árin. Þrátt fyrir erfiðan rekstur síðustu ár er Halla bjartsýn á að finna rekstraraðila. 

„Ég held að það gætu verið þarna aðilar núna sem eru kannski að hugsa sér til hreyfings eða breytinga í sínum rekstri og þetta gæti harmónerað við eitthvað annað."