Ákærður fyrir manndráp og íkveikju

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV
Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann fyrir manndráp og íkveikju. Maðurinn er ákærður fyrir að hafa kveikt eld í húsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu 25. júní. Þrennt lést af völdum eldsins.

Maðurinn var handtekinn skömmu eftir íkveikjuna og úrskurðaður í gæsluvarðhald næsta dag. Nú eru liðnar tólf vikur frá þeim tíma og þurfti því að gefa út ákæru í dag. Eldsvoðinn hefur verið rannsakaður sem íkveikja og staðfesti Kolbrún Benediktssdóttir varahéraðssaksóknari við fréttastofu í dag að maðurinn hefur verið ákærður fyrir manndráp og íkveikju. Hún staðfesti einnig að gæsluvarðhald yfir manninum hafi verið framlengt.

Eldsvoðinn leiddi til umræðu um húsnæðismál erlendra ríkisborgara í láglaunastörfum á Íslandi og skort á eldvarnarráðstöfunum í slíku leiguhúsnæði.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi