Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

78 milljarða hallarekstur ríkisins á öðrum ársfjórðungi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afkoma hins opinbera á öðrum ársfjórðungi þessa árs var neikvæð um 78,4 milljarða króna eða því sem nemur 11,2% af vergri landsframleiðslu. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins hafa haft neikvæð áhrif á tekjuöflun og útgjöld ríkisins

Þetta kemur fram í úttekt Hagstofunnar. Þar er áætlað að tekjur ríkisins hafi dregist saman um 7,1% miðað við annan ársfjórðung í fyrra. Tekjuskattur og skattur á hagnað er talinn hafa dregist saman um 9% og tekjur af tryggingagjaldi dregist saman um 16% en ein af aðgerðum ríkisins var að fresta greiðslu tryggingagjalds.

Þetta mikla tekjufall kemur þrátt fyrir að Landsvirkjun greiddi 10 milljarða króna arðgreiðslur til ríkisins sem tekjufærðar eru inn á annan ársfjórðung.

Heildarútgjöld ríkisins eru talin hafa aukist um 13,9% á öðrum ársfjórðungi samanborið við í fyrra. Launakostnaður er þar stærsti þátturinn eða um 33%. 

Í úttekt Hagstofunnar kemur fram að í ársfjórðungsuppgjörum ríkisins er stuðst við innheimtar skatttekjur á greiðslugrunni frekar en rekstrargrunni. Þar sem nú ríki mikil óvissa um innheimtuhlutfall vegna aðgerða stjórnvalda, til dæmis frestun á skattgreiðslum, verður uppgjörið endurskoðað þegar betri upplýsingar liggja fyrir.

Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofan