Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þarf að kalla fleiri konur í nánari skoðun en talið var

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krabbameinsfélagið þarf að kalla fleiri konur inn til frekari skoðunar en í fyrstu var talið, vegna endurskoðunar á um sex þúsund sýnum vegna mistaka sem komu upp á leitarstöð félagsins.

Í síðustu viku var búið að rannsaka 2.500 sýni, og af þeim leiddi í ljós að 65 konur þyrftu að koma inn til frekari skoðunar. Það gera um 2,6% hlutfall. Nú er búið að rannsaka 3.300 sýni og ljóst að 108 konur þurfa að koma til frekari skoðunar. 

Af þessum 800 sýnum sem rannsökuð voru milli vikna, þurfa 43 að koma til frekari skoðunar. Það gerir 5,4% hlutfall. Fyrir fram var búið að áætla að 100-150 konur þyrfti að kalla inn af þessum 6.000.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs, að fyrstu tölur hafi bent til þess að hafa þyrfti samband við um 2,5% af þessum 6.000 konum þar sem sýni voru endurskoðuð. 

„En þá vorum við stutt á veg komin og því ekki um áreiðanlegar tölur að ræða. Eins og staðan er núna eru þetta um 3,3% og hefur verið nokkuð stöðugt, en það gæti auðvitað breyst eitthvað,“ segir í svari frá Ágústi.

Samkvæmt þessu gæti því þurft að kalla um 200 konur aftur til frekari skoðunar.