Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Smitin eru rakin til háskólanna og veitingastaðar

17.09.2020 - 12:23
Fundur almannavarna 4.8.2020 
Víðir Reynisson
 Mynd: Almannavarnir - Ljósmynd
Meirihluti þeirra 19 sem greindust með kórónuveirusmit í gær er ungt fólk. Smitin eru nánast öll á höfuðborgarsvæðinu, eins og smitin 13 sem greindust í fyrradag og eru einkum rakin til þriggja staða; Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og veitingastaðar í Reykjavík. Um þriðjungur þeirra smituðu voru í sóttkví.

Ekki hafa greinst fleiri smit á einum degi síðan í vor. Þá voru Almannavarnir á neyðarstigi, en eru nú á hættustigi. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir að verið sé að endurskoða áhættumat. Það þurfi að gerast hratt.  „Við erum stöðugt að fara yfir þetta og það þarf greinilega að endurmeta aðeins hvernig staðan er og hvað við getum gert til að stoppa þetta ef þetta er að verða einhver bylgja í þessari bylgju tvö, ef við getum kallað það þannig,“ segir Víðir.

Sjö þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví og meirihlutinn er fólk um þrítugt og yngra. Víðir segir að við ákvörðun á áhættumati sé meðal annars litið til þess hvar smitin hafi komið upp og tengingar á milli smitaðra. Hann segir að ekki sé hægt að fullyrða um hópsmit. 

„Það eru engin ein tengsl í öllu þessu en það myndast í þessu klasar þar sem fólk hefur sameiginlegan stað sem það hefur komið á þó það sé ekki endilega tengt.“

Hvaða staðir eru það? „Til dæmis veitingastaðir. Það eru háskólarnir tveir sem tengjast inn í þetta og einhverjir vinnustaðir.“

Víðir segir að veitingastaður í Reykjavík sé einn þessara klasa. Hann segist ekki vita til þess að smit hafi komið upp meðal starfsmanna þar. Hann vildi ekki gefa upplýsingar um hver staðurinn væri. „Ég held að það sé engin ástæða til þess í bili. Við erum ennþá að skoða þetta og erum í samvinnu við eigendur þess staðar að fara yfir málin og afla frekari gagna.“