Sláandi að sjá bara hvíta leikara árið 2020

Mynd: Aldís Amah/Þjóðleikhúsið / Aldís Amah/Þjóðleikhúsið

Sláandi að sjá bara hvíta leikara árið 2020

17.09.2020 - 17:40

Höfundar

Þegar Aldís Amah Hamilton leikkona sá kynningarmyndir stóru leikhúsanna af fastráðnum leikurum þetta leikárið segir hún einsleitnina hafa „öskrað í andlitið á sér,“ enda hörundslitur allra leikaranna svipaður. Hún og aðrir íslenskir leikarar af blönduðum uppruna hvetja forsvarsmenn leikhúsa og leikstjóra til að gefa ólíkum leikurum tækifæri.

Senn líður að því að leikhúsin bjóði langþráða áhorfendur aftur velkomna í sali sína því leikárið er að hefjast á ný eftir skyndilega lokun vegna samkomutakmarkana í vor. Í tilefni af því senda húsin frá sér bæklinga og kynningarefni þar sem meðal annars má sjá myndir af fastráðnum leikurum húsanna hýra á brá og spennta á svip fyrir komandi vetri. Síðustu mánuðir hafa þó ekki aðeins einkennst af heimsfaraldri og umræðum í kringum hann heldur hefur umræða um stöðu svarts fólks í Bandaríkjunum verið í algleymingi, sem leiddi einnig til umræðu um stöðu fólks af blönduðum uppruna á Íslandi. Þegar bæklingar leikhúsanna komu út í haust hjó Aldís Amah Hamilton leikkona eftir því að enginn leikari af blönduðum uppruna er fastráðinn við annað af stóru leikhúsunum þetta leikárið. Aldís vakti máls á þessum halla í færslu á Facebook sem fór víða og vakti mikil viðbrögð. Hún ræddi inntak færslu sinnar, viðbrögðin við henni og stöðu leikara af blönduðum uppruna við Önnu Marsibil Clausen í Lestinni á Rás 1.

Aldís segir að í raun hafi staðan ekki komið sér á óvart þar sem hún þekkir sjálf flesta íslenska leikara af blönduðum uppruna og veit að þeir eru ekki á meðal fastráðinna þetta árið en henni hafi samt verið brugðið þegar hún sá myndina, „því á henni öskrar þetta í andlitið á manni frekar en að læðast meðfram veggjum,“ segir hún. Hún segir að þeir leikarar sem blasi við á myndinni séu „allt hæfileikaríkir og flottir leikarar en það er mjög mikil einsleitni í hópnum. Ég get ekki neitað því að það er svolítið sláandi árið 2020 þar sem umræðan hefur verið mikil um þessi málefni.“ Hún telur þennan ójöfnuð ekki vera viljaverk leikhúsanna. Frá 2014 segir hún að það hafi alltaf verið fastráðinn að minnsta kosti einn leikari af blönduðum uppruna í stóru leikhúsunum. „En núna hefur eflaust ekki verið pælt í þessu,“ segir hún. „Þetta hafa verið afdrifaríkir tímar og mikil óvissa og ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta séu bara mistök. En vissulega þarf að benda á það.“

Sjálf segist hún ekki hafa stefnt á leiklist í uppvextinum og ástæðu þess meðal annars skort á fyrirmyndum. Þegar hún ræddi málið við Maríu Thelmu vinkonu sína og bekkjarsystur úr leiklistinni sem er af taílenskum og íslenskum uppruna hafði hún sömu sögu að segja. „Og við vorum bara: Ókei. Hér hefur maður verið í þrjú ár í þessu námi og við höfum borgað fúlgu, erum við að fara að leika bara útlendinga? Er það að fara að gefa mér eitthvað?“ Þó þær hafi báðar fengið fleiri tækifæri segir Aldís að það sé eðlilegt að Íslendingar sem ekki eru bara hvítir spyrji sig þessara spurninga. „Þegar maður er að ákveða hvað maður vill gera í framtíðinni og það eru engar fyrirmyndir er eðlilegt að hugsa: Ætla ég að eyða tíma og orku í það sem er ekki að fara að hafa neitt upp á sig?“

Spurningunni hvort það séu engir nógu góðir Íslendingar af blönduðum uppruna til að fá fastráðningu í ár segir hún ómögulegt að svara því þeir fái ekki alltaf tækifæri til að sanna sig. „Hver er mælikvarðinn á að vera góður leikari? Er nóg að ganga út frá að þú sért ekki nógu góður og eru allir sammála um að það séu bara bestu leikarar Íslands fastráðnir í leikhúsinu núna?“ Með því að varpa fram þessum spurningum segist hún þó síst vilja draga úr gæðum þeirra leikara sem þann hóp skipi. „En getur verið að við séum ekki nógu dugleg að gefa fólki af blönduðum uppruna rullur sem þau geti sýnt sig og sannað í?“ Hún skorar á leikstjóra og aðstandendur leikhúsa til að hugsa út fyrir rammann og ráða líka fólk af blönduðum uppruna til að leika klassísk hlutverk. Fjölbreyttur hópur gæti tekist á við hlutverk Ástu Sóllilju eða Fjalla-Eyvindar til að mynda ef fólk leyfði sér að hugsa út fyrir rammann. „Ef við erum að túlka gömul verk sem hafa verið sett upp rosalega oft erum við alltaf að reyna að finna nýjan vinkil á hlutunum. Er ekki kominn tími til að skoða þessa vinkla, ekki út frá því hvernig Íslendingar litu út áður heldur hver því hver sé kjarni Íslendinga?“ spyr Aldís.

En hvernig þorir Aldís að gagnrýna leikhúsin, óttast hún ekki að mála sig út í horn sem leikkona með því? „Af hverju gerir sér það einhver að vera leikari? Þú ert að gera þig að auðveldu skotmarki,“ segir Aldís og hlær. Hún viðurkennir þó að eftir að hafa skrifað pistilinn sem hún birt loks á Facebook hafi komið hik á hana. „En ég tek það fram í pistlinum að þetta er ekki árás og ekki sett fram af illsku. Stjórnendur leikhúsanna eru nákomnir kennarar og vinir svo þetta er ógeðslega erfitt enda búum við í rosalega litlu samfélagi þar sem maður vill ekki móðga eða særa,“ segir Aldís. Hún hefur fulla trú á að stjórnendur leikhúsanna taki hugvekjunni ekki sem illviljaðri heldur uppbyggilegri. „Þau eru flottir einstaklingar og auðmjúkir sem geta lesið svona pistla og séð hvað við erum að tala um.“ Þrátt fyrir það fann hún vissulega fyrir kvíða þegar hún sá hvílík viðbrögð skrif hennar fengu. „Þetta er kvíðavaldandi, sérstaklega þegar þetta er komið á alla miðla. Þá býður kona hættunni heim,“ segir Aldís. Hún er engu að síður ánægð með að hafa látið slag standa enda hafa viðbrögðin verið jákvæð og umræðurnar mikilvægar. „En ég sendi samt á vini mína: Guð minn góður - ég held ég hafi verið að eyðileggja ferilinn minn,“ segir hún kímin að lokum.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Aldísi í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hluti af samfélaginu eða staðalímynd?