Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sex staðfest smit í HR - Nemendum boðið í skimun

17.09.2020 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Sex nemendur Háskólans í Reykjavík greindust með Covid-smit í gær. Þetta kemur fram í tölvupósti sem forsvarsmenn skólans sendu í dag. Fimm af sex þeirra sem smituðust eru innan sama nemendahóps.

Ekki talið að smitið sé útbreitt innan skólans

Í tölvupóstinum til nemenda segir að ekki sé talið að smitið sé mjög útbreitt innan skólans. „Fimm þessara sex smita sem vitað er um tengjast og eru innan sama nemendahóps. Sá hópur og kennarar hans stunda nám og vinnu heiman að frá sér og koma ekki í HR meðan smitrakningarteymi vinnur að rakningu og ákvörðunum um hverjir fari í sóttkví,“ segir í póstinum. 

Þá segir einnig að öll rými sem viðkomandi einstaklingar hafi komist í snertingu við hafi verið sótthreinsuð. Nemandinn sem greindist og er ótengdur þessum hópi hefur ekki komið í HR í nokkurn tíma og því hefur enginn í skólanum þurft að fara í sóttkví vegna hans.

Nemendur hvattir til að fara í skimun

Allir nemendur skólans eru hvattir til þess að fara í skimun. „Eins og fram hefur komið hefur Íslensk erfðagreining boðist til að skima nemendur og starfsfólk HR fyrir veirunni. Við hvetjum alla til að þiggja það góða boð, en upplýsingar um fyrirkomulag skráningar ættu að berast síðar í dag,“ segir í póstinum. 

Einn greindist í HÍ

Einn greindist smitaður í um 440 sýnum sem tekin voru úr starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands í gær. Áður höfðu nokkur smit greinst meðal nemenda og starfsmanna skólans. Þar er Jón Atli Benediktsson rektor meðal annarra í sóttkví eftir að smit kom upp í skólanum.