Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir að Ballarin vilji ekki tjalda til einnar nætur

17.09.2020 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Michelle Ballarin skráði sig fyrir allt að sjö milljörðum króna í hlutafjárútboði Icelandair sem lauk í dag. Talsmaður hennar segir að hún vilji hafa áhrif á rekstur félagsins og ætli sér ekki að tjalda til einnar nætur. Þátttaka lífeyrissjóða í útboðinu var góð.

Hlutafjárútboði Icelandair lauk klukkan fjögur í dag. Stefnt var að því að safna allt að 23 milljörðum króna. Niðurstaða útboðsins verður kynnt í síðasta lagi á morgun.

Samkvæmt heimildum fréttastofu tóku allir stærstu lífeyrissjóðir landsins þátt í útboðinu en lengi vel ríkti óvissa um þátttöku þeirra. Fréttablaðið fullyrðir í dag að LSR hafi skráð sig fyrir stórum hlut. Sjóðurinn á nú þegar 8,25 prósenta hlut í félaginu.

Fleiri skiluðu inn tilboði, þar á meðal Michelle Ballarin sem er hvað þekktustu fyrir kaup sín á þrotabúi Wow Air. Heimildir fréttastofu herma að hún hafi látið skrá sig fyrir allt að sjö milljörðum króna. Hins vegar er ekki víst að hún fái að kaupa fyrir alla þá upphæð en það veltur meðal annars á því hver heildareftirspurnin var í útboðinu.

Gunnar Steinn Pálsson talsmaður Ballarin segir að hún vilji hafa raunveruleg áhrif á rekstur félagsins. Hann staðfestir að hún hafi lagt inn tilboð en vill ekki staðfesta upphæðina.

„Ég held að það blasi nú við að ef þessi tala er nærri lagi þá er hún að kaupa verulega stóran hlut í þessu, ef hún fær að kaupa fyrir allan þennan pening. Það fer eftir því hvað það verður mikil eftirspurn og svo framvegis,“ segir Gunnar Steinn.

Hann segir að hún sé ekki komin til að tjalda til einnar nætur.

„Öðruvísi væri hún ekki að setja þeta mikla fjármuni í félagið,“ segir Gunnar. 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV