Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

RIFF verður á netinu: „Fólk þarf afþreyingu“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

RIFF verður á netinu: „Fólk þarf afþreyingu“

17.09.2020 - 19:22

Höfundar

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík stefnir að því að ná til enn fleiri landsmanna en áður, þrátt fyrir COVID-19, með því að færa hátíðina að stóru leyti á netið. Stjórnandi hátíðarinnar segir afþreyingu sjaldan hafa verið mikilvægari.

RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, verður haldin í sautjánda sinn dagana 24. september til 4. október. Þessi hátíð verður þó nokkuð frábrugðin fyrri hátíðum.

„Við erum í fyrsta skipti að færa myndirnar inn á netið, þannig að þær eru allar aðgengilegar á riff.is. Við erum að nota mjög flott umsjónarkerfi, gæðakerfi, til þess að sýna myndir. Miðaverð er mjög lágt. Og með þessu móti náum við til allra landsmanna og erum mjög stolt af því að geta boðið RIFF-myndirnar fyrir alla þá sem búa úti á landi, og ekki síst fyrir þá sem eiga ekki heimangengt, eru á spítala, í fangelsi eða hvað sem er.“

Og þetta eruð þið að gera út af ástandinu?

„Þetta er að sjálfsögðu bara afleiðing af því. En ég held jafnvel að hún sé komin til að vera vegna þess að auðvitað viljum við ná til sem flestra.“

Fara hringinn í kringum landið

Hrönn segir að helstu myndirnar verða þó sýndar í Bíó Paradís og Norræna húsinu, en þar verður mjög takmarkað sætaframboð.

Önnur nýjung í ár er bíóbíllinn svokallaði sem fer um allt land, en í honum verður hægt að horfa á myndir á hátíðinni.

„Hugmyndin er liður í því að RIFF sé fyrir alla. Bíllinn leggur af stað á eftir, fer upp í Borgarfjörð og síðan fer hann hringinn í kringum landið,“ segir Hrönn. „Og við erum búin að hafa samband við heimamenn sem ætla að taka vel á móti okkur. Við förum fyrir framan grunnskóla og leikskóla og sýnum myndir fyrir krakka. Og svo erum við með dagskrá í eftirmiðdaginn þar sem við sýnum evrópskar stuttmyndir. Í tilefni af EFA, evrópsku kvikmyndaverðlaununum, er Evrópa í sérstökum fókus í ár. Og svo er það útibíó á kvöldin. Þannig að þetta verður heljarinnar dagskrá og mikið fjör út um allt land.“

Hugsa um eitthvað annað

Á hátíðinni í ár verða sýndar nokkrar nýjar íslenskar myndir, meðal annars Þriðji póllinn eftir Andra Snæ Magnason og Anni Ólafsdóttur. Þá vekur athygli að rúmur helmingur þeirra 110 mynda sem sýndar verða á hátíðinni er eftir konur.

Hrönn segir að það sé vissulega erfitt að skipuleggja svona hátíð í heimsfaraldri. Aldrei hafi þó komið til greina að aflýsa henni.

„Fólk þarf afþreyingu, það þarf skemmtun, það þarf að geta lyft sér upp. Og kvikmyndir eru bara svo þægileg leið til þess að bregða sér í annan heim, kynnast samfélögum annars staðar og aðeins hugsa um eitthvað annað en það sem við erum akkúrat að eiga mest við núna.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Kvikmynd um geðhvörf með fílum og söngvum

Stelpur filma miðar að því að rétta af kynjahlutfallið

Kvikmyndir

Þriðji póllinn er opnunarmynd RIFF