Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Raddir haustins þagna: Dularfullur fugladauði vestra

17.09.2020 - 03:27
Mynd með færslu
 Mynd: Public domain pictures
Söngfuglar hafa fundist dauðir í stórum stíl í Nýju Mexíkó undanfarna daga.

BBC greinir frá þessu. Martha Desmond vistfræðiprófessor við ríkisháskóla Nýju Mexíkó álítur mögulegt að dauða fuglanna megi rekja til reykmengunar frá eldunum miklu á vesturströnd Bandaríkjanna eða nýafstaðins kuldakasts.

Það séu þó aðeins tilgátur, raunveruleg ástæða dauða fuglanna sé enn á huldu. Hún segir að mögulega séu milljónir fugla dauðir í ríkinu en frekari vitneskja um orsök þess fáist ekki nema með krufningu. Tíðindi hafa einnig borist af óvenjumiklum fugladauða í Kolóradó, Arizona og Texas.

Vísindamenn greina frá því að stofnar villtra fugla í Bandaríkjunum hafi minnkað mjög á síðari árum. Vitni herma að þau hafi séð fugla á borð við söngvara, svölur og þresti hegða sér undarlega áður en þeir gáfu upp öndina.

Vísindamenn og yfirvöld fara þess á leit við almenning að láta vita af dauðum fuglum hvar sem þá er að finna. Desmond kveðst vera niðurbrotin yfir fugladauðanum og segir að hún hafi aldrei séð nokkuð jafn hræðilegt um ævina.