Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Málum fimm kvenna vísað til Landlæknis

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Málum tveggja kvenna verður vísað til Embættis landlæknis til skoðunar og frekari rannsóknar eftir helgi vegna grunsemda um mistök í skimun fyrir leghálskrabbameini hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Þar með verða fimm slík mál á borði landlæknis, tveimur hefur þegar verið vísað þangað og í dag eða á morgun stendur til að vísa því þriðja til embættisins.

Sævar Þór Jónsson er lögmaður kvennanna. Honum hafa borist um 40 mál eða ábendingar um hugsanleg mál vegna mistaka í skimun hjá Krabbameinsfélaginu og segir ekki útilokað að fleirum verði vísað til landlæknis. 

„Þetta eru alls konar mál sem varða þessar skimanir hjá Krabbameinsfélaginu. Við höfum tekið þau mál sem við teljum að séu miklar líkur á að það hafi átt sér stað mistök,“ segir Sævar.

Hann segir að konurnar sem málin fimm varða hafi farið í skimun á sex ára tímabili. „Þetta er tímabilið frá 2012, er elsta málið núna og fram til 2018.“

Þær eru allar látnar. 

Spurður hversu gamlar konurnar voru þegar þær létust segir hann að þær hafi verið frá þrítugs- upp í sextugsaldur.

Krabbameinsfélagið endurskoðar nú sýni frá þúsundum kvenna sem fóru í leghálsskimun árið 2018 eftir að í ljós kom að  kona, sem hafði farið í leghálsskimun það ár og fengið þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert, greindist með leghálskrabbamein. Farið hefur  verið yfir um 3.300 sýni og 108 þeirra hafa sýnt frumubreytingar sem kalla á frekari skoðun viðkomandi kvenna.