Líður ekki endilega vel þegar maður spilar Beethoven

Mynd með færslu
 Mynd: Ari Magg

Líður ekki endilega vel þegar maður spilar Beethoven

17.09.2020 - 14:30

Höfundar

Víkingur Heiðar Ólafsson kemur fram á tónleikum helguðum Beethoven í Hörpu í kvöld. Þess er minnst að 250 ár eru liðin frá fæðingu tónskáldsins og eru tónleikarnir fluttir í beinni á RÚV og Rás 1.

Árið 2020 er þess minnst um allan heim að 250 ár eru liðin frá fæðingu Beethoven. Af þessu tilefni leikur Víkingur Heiðar píanókonsert hans nr. 3, og Eva Ollikainen, nýskipaður aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stjórnar fleiri verkum meistarans.

„Beethoven skrifar músík sem er svo mikið hann,“ sagði Víkingur Heiðar í viðtali við Guðna Tómasson við upphaf afmælisársins. „Ef það er harmur þá er það hans harmur, og við fáum hlutdeild í honum af því að hann var svo örlátur að hafa gefið þessi verk út. Og ef það er gleði þá er það hans gleði á einhverjum tímapunkti fyrir 200-250 árum og við fáum bara að taka þátt í því með honum í einhvers konar endurómi og endursköpun. Hann tekur áheyrendur sína og flytjendur kverkataki. Þegar maður spilar Beethoven þá finnur maður fyrir því ofan í maga. Það er svo mikil innri spenna í rytmanum og manni líður ekki endilega vel þegar maður spilar Beethoven. Það er óútskýranleg spenna sem veldur því að tjáningin verður svo sterk og jafnvel yfirþyrmandi.“

Mynd: Wikimedia / Wikimedia
Guðni Tómasson ræðir við Víking Heiðar um Beethoven. Viðtalið var tekið í upphafi árs 2020.

Einnig leikur Víkingur með hljómsveitinni stutt verk eftir Philip Glass, Glassworks fyrir píanó og strengi, og dagskránni lýkur á sprellfjögurum lokaþætti sinfóníu nr. 1.

Tónleikarnir verða í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV og útvarpað á Rás 1. Hefjast þeir klukkan 20:00.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Lætur allt flakka í útvarpsþætti á persónulegum nótum

Klassísk tónlist

Hildur Guðna og Víkingur verðlaunuð í Þýskalandi

Klassísk tónlist

Fimm stjörnu Víkingur færir okkur gleði á ógnartímum

Myndlist

Jay-Z og Beethoven á súkkulaðiplötu