Leiðtogi Trípólístjórnarinnar hyggst hætta

17.09.2020 - 09:53
Erlent · Afríka · Líbía
epa08120235 Lybia's prime minister of the Government of National Accord (GNA) of Libya, Fayez al-Sarraj during a press conference with Italian Prime Minister Conte at the end of a meeting in Rome, Italy, 11 January 2020. The two met as part of Europe and North Africa's diplomatic efforts to prevent conflict extension in Libya and Turkey's deployment of troops to the country.  EPA-EFE/ANSA/CLAUDIO PERI
Fayez al-Sarraj, forsætisráðherra stjórnarinnar í Trípólí. Mynd: EPA-EFE - ANSA
Fayez al-Sarraj, forsætisráðherra alþjóðlega viðurkenndrar stjórnar í Líbíu, tilkynnti í sjónvarpsávarpi í gærkvöld að hann vildi láta af embætti eigi síðar en í lok næsta mánaðar. Sarraj hefur farið fyrir stjórninni í Trípólí síðan hún var mynduð fyrir fimm árum.

Hann gaf ekki upp ástæður fyrir því vilja hætta, en sagði að árangur hefði náðst í viðræðum um sameiningu Líbíu og undirbúning kosninga og vildi fela völdin í hendur nýjum manni.

Viðræður hafa verið í Genf milli stríðandi fylkinga í Líbíu fyrir milligöngu Sameinuðu þjóðanna. Stjórnin í Trípólí hefur ráðið að mestu vesturhluta Líbíu en í austri er valdamestur stríðsherrann Khalifa Haftar.

Sérfræðingar í málefnum Líbíu segja að ágreiningur hafi verið innan stjórnarinnar í Trípólí, einkum milli forsætisráðherrans og Fathi Bashagha innanríkisráðherra. Bashagha var sagt upp í síðasta mánuði, en uppsögnin síðar dregin til baka.

Sérfræðingar segja að hætti forsætisráðherrann kunni það að leiða til frekari ólgu og valdabaráttu innan stjórnarinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi