Landvinningamaður rifinn af stalli sínum

17.09.2020 - 16:36
epa08674732 A picture made with a slow shutter speed shoes the Sebastian de Belalcazar monument that was demolished by indigenous communities in Popayan, Colombia, 16 September 2020. Indigenous people from the Misak community knocked down a statue of the Spanish conqueror Sebastian de Belalcazar in Popayán, capital of the troubled Colombian department of Cauca (southwest), as a way of 'claiming the memory of ancestors murdered and enslaved by the elites.'  EPA-EFE/Elkin Rojas
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Stytta af spænska landvinningamanninum Sebastian de Belalcazar var rifin niður af innfæddum í borginni Popayan í Kólumbíu í gær. Lögreglan stóð álengdar á meðan fólk úr Misak þjóðflokknum reyrði reipi utan um styttuna og togaði hana af stalli sínum.

Leiðtogar þjóðflokka í Kólumbíu segja Belalcazar táknmynd fimm alda þjóðarmorða og þrælahalds í Kólumbíu. Borgarstjóri Popayan er ósammála, og segir gjörninginn ofbeldisverk gegn tákni um fjölmenningarsamfélag. 
Misak-þjóðin segir hof innfæddra hafa staðið á hæðinni sem styttan var áður en spænskir landvinningamenn réðust inn í landið. Staðurinn sé helgur reitur innfæddra, þar sem forfeður þeirra liggi grafnir.

Auk Misak voru fulltrúar Pijao og Nasa þjóðflokkanna með í för upp Morro del Tulcan hæðina, þar sem styttan af Belalcazar var reist árið 1930. Í yfirlýsingu regnhlífarsamtaka þjóðflokka í Kólumbíu segir að þau hafi haldið réttarhöld yfir Belalcazar. Þar hafi verið sýnt fram á að hann væri sekur um þjóðarmorð, þrælkun, pyntingar, nauðganir og ólöglega landtöku. Þá er hann sakaður um að hafa refsað forfeðrum innfæddra með stjaksetningum eða sigað hundum á þá. Loks er þess krafist að Morro del Tulcan verði yfirlýstur helgur reitur Misak þjóðarinnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi