Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kári: Líkur á að við fáum núna myndarlega bylgju

17.09.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Herða þarf sóttvarnaaðgerðir eins fljótt og kostur er vegna þess fjölda kórónuveirusmita sem greinst hefur undanfarna daga. Þetta segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hann segir að líkur séu á fjölda smita á næstunni.

„Staðreyndin er sú að þessi mikli fjöldi sem er að finnast núna í einstaklingum sem tengjast lítið bendir til þess að við séum með þetta býsna víða dreift í okkar samfélagi. Líkurnar eru töluvert sterkar á því að við fáum núna myndarlega bylgju.“

Síðar í dag raðgreinir Íslensk erfðagreining smitin sem greindust í gær. Tíu tíu af þeim 13 smitum sem greindust í fyrradag hafa verið raðgreind.

„Það reyndust sjö vera með nýtt mynstur stökkbreytinga, það er tiltölulega nýtt sem við höfðum áður séð hjá tveimur frönskum ferðamönnum, en nú finnst það í sjö Íslendingum og sagan segir að það megi vera svo að þessir sjö einstaklingar hafi allir komið inn á sama stað. Það er sú kenning sem smitrakningarteymið er að vinna með. Það bendir ekkert til þess að það sé nein önnur hegðun hjá veirunni, þetta er allt ein og sama veiran. En þetta stökkbreytingamynstur gefur okkur tækifæri til að fylgja henni hvernig hún breiðist út í samfélaginu.“

Kári telur að ekkert nýtt smit hafi borist inn í landið frá 19. ágúst þegar tvöföld skimun var tekin upp við komuna til landsins. 

„ Í vor voru smitaðir einstaklingar að streyma inn í landið frá hinum ýmsu löndum. Þannig að dýnamíkin í þessu er allt önnur. Nú er bara útbreiðsla á smitum sem eru til staðar í samfélaginu,“ segir Kári.

Fjöldi smita síðustu daga er í engu samræmi við spár. Kári segir erfitt að spá fyrir um útbreiðslu smita. Hún sé að mestu leyti háð hegðun fólks. Hann segist ekki hafa búist við þessum fjölda smita. „Þetta olli mér vonbrigðum. Ég held að það væri skynsamlegt að herða sóttvarnaaðgerðir núna. Af fullum krafti og gera það hratt og fljótt. Ekki láta okkur fara inn í helgina án þess að vera búin að breyta kringumstæðum. Ef ég réði þessu myndi ég loka öldurhúsum bæjarins yfir helgina.“