Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Í lagi að þykja vænt um erfiða reynslu

Mynd: RÚV / RÚV

Í lagi að þykja vænt um erfiða reynslu

17.09.2020 - 11:51

Höfundar

„Ég var á ferðalagi á leið til Spánar. Við millilentum í London og þar er ég í raun orðin veik og komin í það sem kallast geðrof,“ segir Halla Birgisdóttir myndlistarmaður um veikindi sem eru efniviður bókverks sem kom út á dögunum.

Bókin ber titilinn Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftir á og segir frá því þegar Halla fór í geðrof þegar hún var stödd á flugvelli í Bretlandi fyrir tæpum 10 árum. „Kærastinn minn og fjölskyldan mín þurftu  að leggja mig inn á geðdeild þar. Síðan svona heldur sagan áfram hérna heima á geðdeild.“ Líklegt er talið að álag hafi ræst fram sjúkdóminn, en hún hafði vikurnar á undan unnið að lokaverkefni í myndlistarnámi sínu. „Þetta gerðist á meðan ég var í Listaháskólanum og eftir að ég útskrifaðist af geðdeildinni þá byrjaði ég að teikna eina mynd á dag, bara af einhverju. Smám saman fóru þessar einu myndir að snúast um þessa reynslu, þannig að þá byrjaði ég í raun að teikna eina mynd, setti hana á bloggsíðu og skrifaði. Upphaf bókarinnar er í rauninni byggt á þessari bloggsíðu. En síðan ákvað ég að hætta því og stefna að því að gefa þetta út í bókarformi,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Í kjölfar innlagna var Halla greind með geðhvörf, þá 22 ára gömul. Við tók viðeigandi meðferð og bati. Í bókinni tínir hún til ýmiss konar heimildir um geðrofstímabilið, til að draga upp heillega og breiða mynd af atburðarásinni. „Mín reynsla er ekki bara það sem ég upplifði, sem er allt annað en það sem aðstandendur upplifðu, og síðan er það allt annað sem kemu fram í sjúkraskýrslu eða lögregluskýrslu eða hvað sem það er. En mér fannst svolítið mikilvægt að draga það líka fram. Það kippir fólki yfir í raunveruleika aðstandendanna, sem er allt annar.“ segir Halla. Til að mynda eru smáskilaboð sem ættingar og vinir sendu sín á milli hluti af efni bókarinnar. 

Hvað er ég að spá?

Að hennar sögn hefur vinnsla bókarinnar bæði styrkt hana, hjálpað til við úrvinnslu atburðanna og auðveldað umræður um veikindin. „Ég er í raun að vinna mig svolítið í gegnum þessa reynslu með teikningum og texta. Ég var náttúrulega bara í öðrum raunveruleika. En þegar ég tók þetta aftur upp núna og fór að editera þetta aðeins, þá sat ég með kærastanum mínum og sagði, „hvað er ég að spá, af hverju er ég að segja öllum þetta?" En þá gátum við einmitt líka notað bókina til að tala um þetta af því að við höfðum ekkert endilega og vorum ekkert tilbúin í það þá, en getum það núna.“

Myndi gera þetta aftur

Bókin er fyrsta bók Höllu, sem starfar sem myndlistarmaður og útskrifast sem kennari frá listkennsludeild LHÍ í næsta mánuði. Í tengslum við útgáfuna opnar sýning á vegum Flæðis gallerís í Tjarnarbíói með myndum úr bókinni. Aðspurð segist Halla að verðmæti sé fólgið á áskorunum af þessum toga og úrvinnslu þeirra. „Mér þykir rosalega vænt um þessa reynslu og er kannski að læra það svolítið núna að þetta sé eitthvað sem er í lagi að vera stoltur af og þykja vænt um. Fyrir aðstandendum er sársaukinn svo mikill af því að þeir eru búnir að missa mig yfir í þennan annan veruleika. En fyrir mér, á meðan þetta var að gerast, var þetta raunverulegt og þetta var ævintýralegt. Ég myndi ekki vilja sleppa því, þú veist ef ég gæti farið aftur í tímann þá myndi ég gera þetta aftur,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Nánari upplýsingar um Höllu og bókina má finna hér.
Hægt er að kynna sér sýninguna í Tjarnarbíói hér.

Tengdar fréttir

Myndlist

Vökva sig og sóla í Mannyrkjustöð

Myndlist

Hrímbóndinn Hrafnkell í samstarfi við náttúruöflin

Menningarefni

Örugg hátíð í musteri íslenskrar gjörningalistar

Myndlist

Veðrið er við, við erum veðrið