Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hlutafjárútboði lokið - Ballarin sögð stefna á 25% hlut

17.09.2020 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Hlutafjárútboði Icelandair lauk klukkan fjögur í dag. Stefnt var að því að safna allt að 23 milljörðum í útboðinu. Icelandair hefur þegar samið við Íslandsbanka og Landsbanka um kaup á hlutabréfum fyrir sex milljarða sem eru háð þeim skilyrðum að félagið nái að safna 14 milljörðum í útboðinu.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við fréttastofu að það muni taka einhvern tíma að vinna úr útboðinu. Niðurstaða þess verði kynnt þegar allt liggur fyrir. Fyrir fram var búist við að niðurstöður yrðu ekki ljósar fyrr en á morgun.

Óvissa ríkti um þátttöku stærstu lífeyrissjóða landsins í útboðinu, en stjórnir sjóðanna funduðu um málið í gær og í morgun. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í fréttum RÚV í gær að erfitt yrði að ná markmiðum útboðsins án þátttöku sjóðanna.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að LSR hefði skilað inn skuldbindandi tilboði í útboðinu. Sjóðurinn á 8,25 prósenta hlut í dag en Fréttablaðið sagði að hann hefði skráð sig fyrir að minnsta kosti tveggja milljarða króna hlut.

Mbl.is og Vísir greindu frá því nú síðdegis að Michele Edwards Ballarin, fjárfestir, hefði skráð sig fyrir sjö milljarða króna hlut í útboðinu og vonist til að eiga 25% hlut í Icelandair eftir kaupin. Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill sem starfar fyrir Edwards, vildi ekki staðfesta upphæðina og fréttastofa hefur ekki fengið hana staðfesta.

Ballarin hefur síðustu mánuði unnið að því að koma endurreistu WOW air í loftið. Uppleggið þar var fyrst um sinn að bjóða upp á fraktflug til Bandaríkjanna og stefna svo á fólksflutninga í kjölfarið. Þau mál hafa verið nokkuð á ís á meðan kórónuveirufaraldurinn hefur lamað flugsamgöngur í heiminum.

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV