Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hetjan sem flúði slátrarann og synti yfir fjörðinn

Mynd: RÚV / RÚV

Hetjan sem flúði slátrarann og synti yfir fjörðinn

17.09.2020 - 14:03

Höfundar

Þegar leiða átti kúna Sæunni til slátrunar árið 1987 drýgði hún sögulega hetjudáð og synti þriggja kílómetra leið yfir Önundarfjörðinn. Henni var vel tekið af bóndahjónum í Valþjófsdal sem hlúðu að kúnni fram á síðasta dag. Hjónunum bárust þakkarbréf fyrir gæsku sína frá allri heimsbyggðinni og mörg þeirra eru enn til. Nú er komin út barnabók um Sæunni.

Það var á mildum haustdegi í október árið 1987 sem nokkrar kýr voru leiddar til slátrunar á Flateyri. Ein þeirra hét Harpa og var alls ekki orðin leið á lífinu. Bændurnir höfðu þó komist að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu ekki not fyrir hana lengur og að nú væri mál að senda hana stystu leið til skapara síns. Þegar hún áttaði sig á hvert stefndi tók hún á rás, sleit sig lausa og æddi í átt til hafs. Þegar hún var króuð af í fjörunni kom hún sér undan með því að stinga sér til sunds, synti svo í ofboði burt frá böðli sínum. Margar kýr hefðu endað ævi sína með drukknun eða snúið við en ekki Harpa sem synti þrjá kílómetra yfir Önundarfjörð eða þar til hún kom á land í Valþjófsdal. Þar var henni vel tekið og hún bjó hjá bóndahjónum nokkrum til dauðadags en hét þá nýju nafni, Sæunn. Eyþór Jóvinsson bóksali á Flateyri og kvikmyndagerðamaður hefur nú skrifað og gefið út barnabók um Sæunni og hetjudáð hennar og hann segir tíma til kominn að sagan komist á prent. Bókina prýðir fjöldi afar glæsilegra litmynda eftir Freydísi Kristjánsdóttur sem gæðir söguna lífi. Sjálfur var Eyþór aðeins tveggja ára þegar atburðurinn átti sér stað en söguna þekkir hann upp á hár enda hefur hún lifað með Flateyringum og Önfirðingum síðan. „Hún er algjör Fjarðarhetja þessi kýr, hún Sæunn,“ segir Eyþór stoltur.

Mynd með færslu
 Mynd: Gamla Bókabúðin Flateyri - Sundkýrin Sæunn
Myndirnar eftir Freydísi Kristjánsdóttur

Og hjá hjónunum í Valþjófsdal náði Sæunn hárri elli og varð líka léttari. „Það kom í ljós um vorið að hún hafði verið kálfafull þegar hún synti yfir fjörðinn sem stýrði kannski líka þessum mikla lífsvilja hjá henni,“ segir Eyþór. Auðvitað bar sundkýrin kálfinn á sjálfan sjómannadaginn og kálfurinn fékk nafnið Hafdís. „Ansi mörg dýr hafa bjargað sér á ótrúlegan hátt en þetta er sennilega fræknasta dýrabjörgun á Íslandi“ segir Eyþór sem segir að sögur af hetjudáðum Sæunnar og miskunnarsemi hjónanna sem gáfu henni annað líf hafi borist víða, meðal annars til Indlands. „Þar er litið á kýrnar sem heilagar skepnur svo það rigndi þakkarbréfum, peningagjöfum og heillaskeytum til hjónanna í Valþjófsdal,“ segir Eyþór sem viðurkennir að Indverjar hafi ekki vandað upprunalegum eigendum hennar kveðjurnar. „Það rigndi hótunarbréfum yfir hjónin í Breiðadal sem ætluðu að leiða hana til slátrunar.“

Mynd: RÚV / RÚV
Ómar Ragnarsson fjallaði um björgunarafrek Sæunnar árið 1987

Sæunn endaði ævi sína svo í fjörunni þar sem hún kom að landi á Flateyri. „Þá var hún orðin gömul og mjög veik svo bóndinn leiddi hana til sjávar. Hún var heygð með útsýni yfir fjörðinn og hafið sem bjargaði henni.“

Bókin er í verslunum um allt land og útgáfunni er fagnað í gömlu bókabúðinni á Flateyri í dag. Eyþór sem er kvikmyndagerðarmaður viðurkennir að hann langi að gera kvikmynd upp úr bókinni enda eigi Sæunn skilið að rata á hvíta tjaldið einn daginn og að hróður hennar berist um heim allan.

Rætt var við Eyþór Jóvinsson í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Mér finnst ég mest bara hafa verið að skemmta mér

Kvikmyndir

Fóru hundrað ferðir í Örkinni hans Ómars

Kvikmyndir

Gamanmyndakeppni til að létta lund landsmanna

Íþróttir

Syntu yfir Önundarfjörð eins og kýrin Sæunn