
Hershöfðingi heilbrigðisráðherra Brasilíu
Jair Bolsonaro forseti tilnefndi hershöfðingjann Eduardo Pazuello tímabundið í maí síðastliðnum. Hann er ellefti hermaðurinn í 23 manna ráðuneyti Bolsonaros.
Hann, ólíkt forverum sínum, er sammála forsetanum um hvernig bregðast eigi við útbreiðslu faraldursins. Þar á meðal má nefna að þeir hvetja báðir lækna til að ávísa gigtarlyfinu hydroxychloroquine án þess að fyrir liggi óyggjandi sönnun á virkni þess gegn Covid-19.
Við innsetningarathöfnina sagði forsetinn rannsóknir sýna að koma hefði mátt í veg fyrir 30% dauðsfalla af völdum Covid-19 hefði lyfið verið gefið í tíma. Hann tiltók þó ekki hvaða rannsóknir hann ætti við.
Þeir eru sömuleiðis mjög gagnrýnir á landstjóra þeirra sambandsríkja Brasilíu sem beitt hafa útgöngubanni til að hafa hemil á útbreiðslu veirunnar. Opinberar tölur sýna að nú hafa 134 þúsund látist af völdum Covid-19 í Brasilíu sem telur 212 milljónir íbúa.