Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Harma uppsagnir í miðjum kjaraviðræðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Icelandair, Samtök atvinnulífsins, Flugfreyjufélag Íslands og Alþýðusamband Íslands harma þau viðbrögð Icelandair, með stuðningi SA, að segja upp öllum starfandi flugfreyjum og flugþjónum í júlí, þegar kjaraviðræður þeirra stóðu yfir. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu.

Þar stendur að allir séu sammála um að lögmæt og rétt viðbrögð atvinnurekenda og stéttarfélaga í erfiðum og langdregnum kjaradeilum eigi að fylgja lögum og reglum sem gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðar. Uppsagnir flugfreyja og flugþjóna 17. júlí eru harmaðar, „enda ekki í samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa.“ Þá segir að Icelandair telji nauðsynlegt að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks. Það tryggi frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og á meðan kjaraviðræður standa yfir. 

Allir hlutaðeigandi segjast ætla að leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og leggja sitt af mörkum til þess að endurheimta og efla traust sína á milli. Að lokum segir: „Með yfirlýsingu þessari eru aðilar sammála um að með henni ljúki öllum deilum milli þeirra um þá atburði sem áttu sér stað í samskiptum þeirra þann 17. júlí 2020 og mun hvorugur aðila gera kröfur á hinn vegna þeirra“.