Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hæstiréttur þyngir dóm úr þremur árum í sex ár

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann í sex ára fangelsi fyrir tvær nauðganir gegn eiginkonu sinni og blygðunarsemisbrot gagnvart syni sínum. Landsréttur hafði áður mildað dóm Héraðsdóms Reykjaness úr fjórum árum í þrjú. Maðurinn var einnig fundinn sekur um að hafa brotið 950 sinnum gegn nálgunarbanni og fyrir að setja eftirfarabúnað í bíl eiginkonu sinnar.

Fólkið fluttist til Íslands fyrir sjö árum og hófust afskipti lögreglunnar þremur árum seinna þegar konan kærði manninn fyrir endurtekin ofbeldisbrot gagnvart henni og syni þeirra.  

Hæstiréttur hafnaði kröfu ríkissaksóknara um að horfa til þess að maðurinn hefði rofið skilorð dóms sem hann hlaut í Póllandi. Engu að síður ætti að líta til sakaferils hans þar við ákvörðun refsingar.

Þá væri það manninum til refsiþyngingar að ásetningu hans til þeirra fjölmörgu brota sem hann var sakfelldur fyrir hefði verið styrkur og einbeittur. Hann ætti sér engar málsbætur. Hæstiréttur segir að annað nauðgunarbrotið hafi verið framið á sérstaklega meiðandi hátt auk þess sem brotin hefðu beinst gegn eiginkonu hans og syni.

Maðurinn hlaut fjögurra ára dóm í héraðsdómi en Landsréttur mildaði þann dóm niður í þrjú ár.

Hæstiréttur segir í dómi sínum að frá því rannsókn málsins lauk og þar til ákæra var gefin út hefðu liðið tæplega ellefu mánuðir. Sá tími hafi ekki áhrif á refsingu. Dómurinn bendir jafnframt á að rannsókn málsins hafi verið umfangsmikil enda brotin verið mörg. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV