
Flugferð án áfangastaðar er nýjasta æðið
Ástralska flugfélagið Qantas býður upp á þetta ferðalag og bætist við það í hóp flugfélaga, einkum í Asíu, sem bjóða upp á ferðalög án áfangastaðar. Þá er lagt upp frá flugvelli, flogið um í nokkra klukkutíma og lent aftur á sama velli.
Samtök flugrekenda á í Asíu og við Kyrrahaf kveða ferðatakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins hafa valdið hruni upp á ríflega 97 prósent í millilandaflugi til og frá svæðinu.
Margt fólk sem hefur yndi af ferðalögum saknar flugferðanna. Til að bregðast við því hafa flugfélög því brugðið á þetta ráð, sem ásamt því að gleðja flugfarþega heldur flugmönnum í þjálfun og getur bætt fjárhagsstöðu flugfélaganna.
Ferðalangar í flugferð Qantas sitja um borð í Boeing 787 þotu sem flogið er í lítilli hæð. Slíkar þotur eru yfirleitt notaðar til óralangra flugferða heimsálfa á milli. Út um gluggana geta farþegarnir notið þess að virða fyrir sér náttúru landsins, Uluru fjall. Kóralrifið mikla og hafnarsvæðið í Sidney áður en lent er aftur á Sidney flugvelli.
Miðarnir kosta sem nemur 80 til 380 þúsundum íslenskra króna, eftir því hvar í vélinni setið er. Reuters hefur eftir talskonu flugfélagsins að flugmiðar hafi sennilega aldrei selst jafn hratt í sögu félagsins.
Hún telur að fólk sakni ferðalaga og flugsins sjálfs og því verði án efa bætt við útsýnisferðum af þessu tagi þar til landamæri verða opnuð að nýju.