Flóttafólk bíður í röð við nýjar búðir á Lesbos. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Lögreglan á grísku eynni Lesbos byrjaði í morgun að safna saman flóttafólki og hælisleitendum og koma þeim fyrir í nýjum búðum sem verið er að reisa í stað Moria-búðanna sem brunnu til grunna í síðustu viku.
Í gær höfðu um 1.200 flóttamenn komið sér fyrir í hinum nýju búðum, en margir þeirra ríflega tólf þúsund manna sem í Moria-búðunum dvöldu neituðu að fara þangað.
Þeir kváðust óttast að þurfa að dvelja þar mánuðum saman á meðan verið væri að fjalla um umsókn þeirra um hæli í Grikklandi eða annars staðar í Evrópu.
Þorri flóttafólksins hefur dvaldist undir berum himni síðan búðirnar brunnu, en í morgun var lögregla fengin til að flytja það í nýjar búðir.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatti í gær Grikki til að hraða afgreiðslu hælisumsókna. Lögregluyfirvöld segja stefnt að því að helmingur flóttamanna og hælisleitenda á Lesbos verði farinn þaðan um jól, en afgangurinn fyrir næstu páska.