FH í annað sætið og Valur styrkir stöðu sína á toppnum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

FH í annað sætið og Valur styrkir stöðu sína á toppnum

17.09.2020 - 18:39
Tveir leikir voru í úrvalsdeild karla í fótbolta í kvöld. Valur vann ÍA 2-4 á Skaganum og FH vann Víking 1-0 í Kaplakrika.

 

Leikurinn byrjaði af krafti og FH virtust líklegri til að skora strax í upphafi en Víkingar fengu þó sín færi. Fyrsta markið kom á 43. mínútu þegar Hjörtur Logi Valgarðsson smellhitti boltann sem endaði í netinu. 1-0 fyrir FH stóð í leikhléi. Þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir skoraði Atli Guðnason svo annað mark FH en það fékk ekki að standa vegna rangsöðu Steven Lennon sem átti sendinguna á Atla. Lokatölur því 1-0 sigur FH sem fer með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar með 26 stig, 2 stigum meira en Stjarnan sem á þó leik til góða.

Á Skaganum var líka nóg um að vera þegar topplið Vals heimsótti ÍA. Fyrsta mark leiksins kom eftir sex mínútur þegar Patrick Pedersen kom gestunum yfir eftir klaufaleg mistök í vörn heimamanna. Sigurður Egill Lárusson tvöfaldaði forystu Vals á 23. mínútu og Patrick bætti við þriðja markinu skömmu síðar. Staðan var því 0-3 í hálfleik. Brynjar Snær Pálsson og Gísli Laxdal skoruðu svo fyrir ÍA á 74. og 80. mínútu og staðan orðin 2-3. Kaj Leo gulltryggði svo sigur gestanna í uppbótartíma og niðurstaðan því 2-4 sigur Vals sem er nú á toppnum með 8 stiga forskot á FH í öðru sætinu.

ÍA og Víkingur eru eftir leiki kvöldsins eftir sem áður með 14 stig eins og KA í sætum átta til tíu.