
Erfitt að segja hvort samningurinn verður samþykktur
Nýi samningurinn er svokallaður stofnanasamningur, en að sögn Frímanns B. Baldurssonar varaformanns landssambandsins felur það meðal annars í sér að hver lögreglustjóri fær aukið svigrúm til að umbuna lögreglumönnum vegna meiri ábyrgðar í starfi eða menntunar.
Þá felur hann í sér styttingu vinnuvikunnar.
„Þetta er samningur í anda lífskjarasamninganna sem önnur stéttarfélög hafa gert. Helstu breytingar hjá okkur eru að það er tekin upp ný launatafla og farið yfir í stofnanasamningsumhverfið,“ segir Frímann.
Samningurinn verður kynntur lögreglumönnum næstu daga, síðan verður kosið um hann og þeirri kosningu lýkur 23. september. Frímann segist ekki geta spáð fyrir um hvort hann verður samþykktur. „Það er ómögulegt að segja. Nú eigum við eftir að fara í þessa kynningu hjá lögreglumönnum og það kemur fljótlega í ljós eftir að kynningin hefst hver viðbrögð lögreglumanna verða,“ segir Frímann.