Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Enginn starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar smitaður

17.09.2020 - 09:56
Hús íslenskrar erfðagreiningar.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Enginn starfsmaður Íslenskrar erfðageiningar sem skimaðir voru í gær fyrir COVID-19 er smitaður af kórónuveirunni. Allir starfsmenn fyrirtækisins sem störfuðu á sömu hæð og smitaður starfsnemi voru skimaðir.

Greint var frá því í gær að Íslensk erfðagreining myndi skima allt starfsfólk sitt eftir að starfsnemi úr Háskólanum í Reykjavík sem nam hjá fyrirtækinu greindist smitaður af kórónuveirunni. Allir sem unnu á sömu hæð og starfsneminn voru sendir í sóttkví á meðan beðið var niðurstöðu úr prófunum.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðageiningar, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Kári Stefánsson sagði í fréttum í gær að þau þrettán nýju smit sem greint var frá í gær gætu vel markað upphaf nýrrar bylgju faraldursins hér á landi. Sú bylgja gæti orðið meiri en önnur bylgjan.

Nítján greindust með kórónuveirusmit í gær, að sögn Thors Aspelund, prófessors í líftölfræði við Háskóla Íslands. Það eru enn óstaðfestar tölur en þær verða birtar yfirfarnar ásamt ítarlegri tölfræði klukkan 11 í dag.