Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Einhver hundruð“ með eftirköst COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Landlæknir segir að það sé lykilatriði að fá á hreint hversu umfangsmikið vandamál eftirköst COVID-19 sé hér á landi. Hún segir að vinna sé þegar hafin við að hjálpa fólki sem er með eftirköst. Ljóst sé að „einhver hundruð“ glími við þau hér á landi.

Töluverður fjöldi fólks sem fengið hefur COVID-19 glímir við eftirköst sjúkdómsins, jafnvel þótt margir mánuðir séu síðan það veiktist. Alls eru tæplega 800 manns í Facebook-hópnum „Við fengum Covid19". Margir sem hafa tjáð sig þar hafa lýst slæmum eftirköstum. Forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítalans sagði í fréttum um helgina að mun fleiri glími við þessi eftirköst en búist hafi verið við.

Alma Möller, landlæknir, segir að búið sé að samræma verklag varðandi móttöku þessa hóps.

„Já við erum auðvitað búin að fylgjast með hópi fólks úr fjarlægð síðan í vor. Og við héldum fund núna í sumar; heilsugæslan, COVID-göngudeildin og landlæknir. Og upp úr því er búið að samræma verklag varðandi móttöku þessa hóps. Og það er líka búið að funda með endurhæfingarstofnununum þremur; Reykjalundi, Kristnesi og NLFÍ í Hveragerði. Þannig að það er töluverð vinna sem hefur farið fram.“

Nýr sjúkdómur

Alma segir að þeir sem glími við eftirköst fái sérstaka þjónustu í kerfinu.

„Þeir munu fá þjónustu eins og hver og einn þarf. Þetta eru þrír hópar. Það eru þeir sem voru mjög veikir, til dæmis þeir sem þurftu gjörgæslu, þeir eru alltaf lengi að jafna sig. Síðan einn hópur sem fékk alvarlega fylgikvilla eins og blóðtappa. Síðan er það þriðji hópurinn sem var kannski ekki mjög veikur á meðan veiran gekk en er engu að síður með langvinn og ósértæk einkenni. Og það er kannski fyrst og fremst sá hópur sem þarf að ná utan um. Þeim á að beina á sína heilsugæslu. Það er þverfaglegur hópur sem mun sinna þeim og með hjálp frá COVID-göngudeildinni eins og þarf. Og síðan mun fólk úr þessum þremur hópum sem ég nefndi án efa þurfa fjölþátta endurhæfingu.“

Aðspurð segir Alma að það sé mjög mikilvægt að halda sérstaklega utan um þá sem glíma við eftirköst.

„Þetta er nýr sjúkdómur sem við erum enn þá að læra á. Og við vitum ekki alveg hversu stór þessi hópur er. Það er 10 prósent samkvæmt erlendum rannsóknum en jafnvel enn fleiri. Þannig að þetta eru einhver hundruð hér á landi.“

Mikilvægt að fara sér hægt

Sýnist þér þetta vera stórt vandamál, eftirköst COVID-19?

„Já þetta er umtalsverður fjöldi fólks. Og þau eru með töluverð einkenni. Þar er til dæmis þreyta, sérstaklega eftir áreynslu eða vinnu. Það eru alls konar verkir, það er einbeitingarskortur og andleg einkenni. Þannig að fyrir þetta fólk er þetta mjög íþyngjandi. Það er kannski engin sértæk meðferð. Og það þarf að veita einkennameðferð. Sumt getur fólk gert sjálft. Það er mjög mikilvægt að fara sér hægt hvað varðar þjálfun til að byrja með. Og svo þarf veikasta fólkið kannski meðferð á endurhæfingarstofnun.“

En þið vitið sem sagt ekki hversu stór þessi hópur er nákvæmlega, sem er að glíma við þetta?

„Nei við erum með eina erlenda rannsókn sem talar um 10%. En sennilega eru þetta fleiri. Og ég veit að í Fésbókarhópi hér á landi voru 200 manns í vor. Nú hefur þeim fjölgað. Þannig að það er lykilatriði að greina þetta og fá á hreint hversu umfangsmikið vandamálið er.“

Þannig að það er ekkert í kerfinu sem getur sagt hversu margir einstaklingar þetta eru?

„Nei. Okkur hefur vantað þennan greiningarkóða. Og það er mjög mikilvægt að það sé vandað til þess og samræmt. En í morgun kom einmitt póstur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni með kóða sem verður notaður.“

Þannig að það stendur til að breyta þessu, þannig að það sé hægt að halda betur utan um þetta?

„Já allir sem hafa fengið COVID og eru með langvinn einkenni eru ýmist undir umsjá COVID-göngudeildar eða þá að þeim er beint á heilsugæsluna. Og það er auðvitað frumskilyrði þess að við vitum umfangið, að fólk leiti sér aðstoðar. En ég vil líka nefna að það er hafin rannsókn á vegum COVID-göngudeildar og Íslenskrar erfðagreiningar þar sem fólki sem hefur fengið COVID er boðið að koma til skoðunar. Og það verður mjög ítarleg skoðun,“ segir Alma.