Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Ég vil ekki spá einhverri stórri bylgju“

Mynd: Skjáskot / RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist ekki reiðubúinn að spá því að hér sé að skella einhver stór bylgja af kórónuveirusmitum. Það sé þó viðbúið að virkum smitum muni fjölga næstu daga. Þá tölu verði samt að skoða í því ljósi að verið sé að skima miklu meira í samfélaginu. „Það er mjög líklegt að við finnum fólk sem er einkennalítið eða einkennalaust og það verður líta á það í því samhengi.“

Þórólfur var gestur Kastljóss. Fyrr í kvöld var greint frá því að hann ætlaði að leggja til við heilbrigðisráðherra að öllum krám og skemmtistöðum á höfuðborgarsvæðinu yrði lokað um helgina.  

Þórólfur sagði ástæðulaust að herja á veitingastaði líka því vísbendingar væru um að tengja mætti smitin nú við þessa staði og því væri verið að einblína á þá.  Hann sagði ómögulegt að segja hvernig þetta hefði gerst, það þyrfti ekki annað en að einhver sem væri mjög smitandi kæmi  inn á einn svona stað þar sem væri til að mynda kareoke-keppni með mörgum að syngja. 

The Irishman Pub er einmitt einn vinsælasti kareoke-staður Reykjavíkur en þeir sem sóttu staðinn á föstudag hafa verið beðnir um að skrá sig í sýnatöku.

Þórólfur vildi ekki spá því að þetta væri upphafið að einhverri stórri bylgju. „Við sjáum hvar rótin er og við erum með nokkuð gott utanumhald. Rakningateymið hefur sýnt og sannað að þeir geta fundið einstaklinga og einangrað þá og ég hef fulla trú á því að þeim takist það núna.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV