Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Biðja gesti Irishman Pub að fara í sýnatöku vegna COVID

17.09.2020 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun
Sóttvarnalæknir og almannavarnir hafa opinberað að vínveitingastaðurinn The Irishman Pub við Klapparstíg í miðborg Reykjavíkur sé sá staður þar sem talið er að fjöldi fólks hafi verið útsett fyrir COVID-19 smiti síðastliðið föstudagskvöld.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að ekkert bendi til þess að sóttvörnum hafi verið áfátt á staðnum. Hætta á smiti sé alltaf til staðar þegar fjöldi fólks kemur saman. 

„Nauðsynlegt er að hafa uppi á þeim sem þar voru til þess að koma í veg fyrir frekar útbreiðslu veirunnar. Er þeim sem sóttu ofangreindan stað umræddan dag á milli klukkan 16:00 og 23:00 því boðið að mæta í sýnatöku,“ segir í tilkynningunni.

Þeir sem voru á staðnum á umræddum tíma geta á morgun, föstudaginn 18. september, skráð sig í sýnatöku á heilsuvera.is. 

Mikill fjöldi nýrra kórónuveirusmita hafa greinst hér síðustu tvo daga. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði að sjö af þeim 13 sem greindust í fyrradag reyndust hafa sótt sama öldurhúsið sem nú er búið að upplýsa að sé The Irishman Pub.