Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ætla að loka hjólhýsahverfinu á Laugarvatni

17.09.2020 - 21:09
Mynd með færslu
Mikil umræða fór fram um brunavarnir á hjólasvæðinu eftir að eldur kom þar upp í september fyrir tveimur árum. upp  Mynd: Brunavarnir Árnessýslu
Sveitastjórn Bláskógabyggðar hefur ákveðið að hætta rekstri hjólhýsasvæðis við Laugavatn innan tveggja ára. Ástæðan er sögð sú að öryggi fólks sé verulega ábótavant komi þar upp eldur. Bæði lögreglustjórinn á Suðurlandi og slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu hafa bent á að ástandið á svæðinu sé með öllu óviðunandi með tilliti til brunavarna og öryggis fólks. Þá hefur Húsnæðis-og mannvirkjastofnun sagt að það sé á ábyrgð Bláskógabyggðar að tryggja fullnægjandi aðgerðir gegn eldsvoða.

„Sveitarstjórn telur sér ekki fært að leggja fjármagn í þá uppbyggingu svæðisins, sem til þyrfti að koma til að ástandið yrði viðunandi. Ljóst er að sveitarfélagið yrði að leggja í verulegan kostnað til að koma öryggismálum á svæðinu í viðunandi horf, svo sem með öflugri vatnslögn inn á svæðið fyrir slökkvivatn og uppsetningu brunahana og gerð flóttaleiða,“ segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Þar kemur jafnframt fram að rekstur hjólhýsasvæðis við Laugarvatn eigi sér hátt í 50 ára sögu og margar fjölskyldur hafi notið þar dvalar. „Þar sem ekki er unnt að tryggja viðunandi brunavarnir og öryggi fólks nema ráðast í umtalsverðan kostnað verður starfseminni hætt, enda er ekki hægt að réttlæta að sveitarfélagið kosti slíka uppbyggingu.“

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, sagði við fréttastofu RÚV í október að hjólhýsabyggðir eins og á Laugarvatni væru mikið áhyggjuefni. Ekkert eftirlit væri með öryggismálum og eldur gæti breiðst út hratt ef hann kviknaði á annað borð. Þá hafði kviknað heilmikill eldur í hjólhýsi en þar sem slökkviliðsmenn voru snöggir á vettvang tókst að komast í veg fyrir útbreiðslu hans.