100 milljónir frá Landsvirkjun flýta sviðslistahúsi

17.09.2020 - 12:43
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, eftir undirritun í Sláturhúsinu.
 Mynd: eftir undirritun í morgun - RÚV/Rúnar Snær Reynisson
Landsvirkjun greiðir Fljótsdalshéraði 100 milljónir króna fyrir tíu ára húsaleigu í Sláturhúsinu, menningarmiðstöð á Egilsstöðum. Þetta auðveldar og flýtir uppbyggingu bæði Sláturhússins og Safnahússins. Framkvæmdum á að ljúka árið 2022. Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Björn Ingimarsson bæjarstjóri skrifuðu í morgun undir samning um Ormsstofu, sýningu sem Landsvirkjun ætlar að setja upp í hluta Sláturhússins.

„Við tökum þátt með því að gera leigusamning um ákveðið húsnæði til tíu ára og greiðum leiguna fyrir fram og auðveldum þannig sveitarfélaginu að fara í framkvæmdina. Þetta eru hundrað milljónir króna sem við greiðum sem fyrirframgreidda leigu,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Sýning í Ormsstofu enn í mótun

Aðspurð hvers vegna Landsvirkjun fari í þetta verkefni á Egilsstöðum segir hún að fyrirtækið vilja vinna með nærsamfélagi sínu. „Okkur finnst tilvalið að taka þátt í uppbyggingu á svona húsi sem við vitum að verður mikil orka í, orka mannsins. Við viljum þekkingu og fræðslu og taka þátt í lífinu hérna. Hér erum við með stóra orkuvinnslu þannig að við viljum tengja okkur meira og betur við nærsamfélagið." Sýningin hefur enn ekki verið hönnuð og eru hugmyndir um hana enn í mótun.

Nýtt sviðslistarými mögulega nýtanlegt á næsta ári

Ríkið leggur líka fé í uppbyggingu Sláturhússins og Safnahússins á Egilsstöðum til að efna gamalt loforð um uppbyggingu menningarhúsa í öllum landshlutum. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, segir að fyrirframgreiðslan frá Landsvirkjun verði hluti af því fjármagni sem notað verði til framkvæmda. „Við erum að horfa til þess að fara hér í framkvæmdir við sýningarsal á neðri hæð þar sem Ormsstofa verður staðsett. Við erum að horfa á tengingu upp á efri hæð og síðan framkvæmdir við þak og blackbox-rými á efri hæðinni, það er sviðslistarýmið. Við erum að horfa til að það gæti orðið nýtanlegt á næsta ári,“ segir Björn. 

Einnig hefjist vinna við að hanna stækkun Safnahússins á Egilsstöðum og öllum framkvæmdum ætti að ljúka á árinu 2022.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi