Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vökva sig og sóla í Mannyrkjustöð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin

Vökva sig og sóla í Mannyrkjustöð

16.09.2020 - 14:29

Höfundar

„Mannyrkjustöð Reykjavíkur er okkar tilraun til að gefa borgarbúum tækifæri til að tengjast sinni innri plöntu,“ segir Búi Bjarmar Aðalsteinsson, annar hönnuður Mannyrkjustöðvarinnar í Hljómskálagarðinum í Reykjavík.

Stöðin samanstendur af nokkrum sérsmíðuðum tækjum sem þátttakendur nota hvert á fætur öðru samkvæmt leiðbeiningum hönnuðanna, Búa og Hrefnu Lindar Lárusdóttur. „Við erum með æfingastöðvar, sem við þekkjum mjög vel fyrir hreyfingu en fáar æfingastöðvar gefa okkur kost á að tengjast hinu innra sjálfi. Hér eru fjórar stöðvar þar sem fólk getur farið í gegn og komið þá út í bættum tengslum við plöntuna sína og þá búin með mannrækt dagsins,“ segir Búi Bjarmar. 

Rótun, sólun, vökvun

Leiðbeiningarnar eru ekki langt undan. „Þú getur hringt í símanúmer og fengið leiðsögn. Það er 30 mínútna langur símsvari sem leiðir þig áfram í gegnum allar stöðvarnar. Þú myndir byrja í rótun og fá rótarhugleiðslu og stinga fótum ofan í moldarbeð. Síðan ferðu í vökvun og lætur dreypa dropum á hvirfilinn. Svo er það sólun, við mælum með 7 mínútum í sólun,“ segir Hrefna Lind. 

Að sögn Búa getur regluleg mannyrkja skilað góðum árangri. „Það eru tveir meginkostir við Mannyrkjustöðina. Það eru bætt tengsl við sjálfan sig, þá hefur maður kannski bætta innsýn í það rými sem maður þarf og hvar maður vex, og svo aukin samkennd og mögulega virðing fyrir náttúrunni.“

Sterkt innra blóm

Út frá Mannyrkjustöðinni spratt svo annað verkefni, plöntupersónuleikapróf sem leiðir í ljós að hvaða plöntugerð persónuleiki fólks fellur best. Það fær síðan það vottaða greiningu frá Mannyrkjustöðinni um hvaða plöntuflokki það tilheyrir. „Við leggjum áherslu á þessa fjóra meginplöntuflokka. Burknar, blóm, barr og mosi. Veita fólki meiri innsýn og það getur þá mögulega notað Mannyrkjustöðina með markvissari hætti. Til að mynda ef fólk er með sterkt innra blóm, þá liggur ljóst fyrir að það þarf að eyða meiri tíma í sólun heldur en til að mynda vökvun. Þarna eru kannski tækifærin í að bæta við þessum greiningarhluta inn í Mannyrkjustöðina til að hún geti síðan fengið framhaldslíf og þjónustað borgarbúa betur,“ segir Búi.

Nánari uppýsingar um Mannyrkjustöðina og plöntugreiningarprófið má finna hér.