Virt vísindarit tekur stöðu með Biden

epa08290130 Democratic candidate Joe Biden speaks about the coronavirus at the Hotel Du Pont in Wilmington, Delaware, USA on 12 March 2020. The U.S. has topped 1,000 confirmed cases of coronavirus.  EPA-EFE/TRACIE VAN AUKEN
Joe Biden. Mynd: EPA-EFE - EPA
„Gögnin og vísindin sýna að Donald Trump hefur skaðað Bandaríkin og bandarísku þjóðina - því hann hafnar sönnunargögnum og vísindum," segir í leiðara nýjasta tölublaðs bandaríska vísindaritsins Scientific American. Ritið tekur í fyrsta sinn í 175 ára sögu þess afstöðu í bandarísku forsetakosningunum, og styður Joe Biden opinberlega.

Í leiðaranum segir að skelfilegasta dæmið sé óheiðarleg og klunnaleg viðbrögð hans við COVID-19 faraldrinum. Faraldurinn hefur kostað nærri 200 þúsund Bandaríkjamenn lífið. „Einnig hefur hann ráðist gegn umhverfisvörnum, heilbrigðisþjónustu, og vísindamönnum og -stofnunum sem aðstoða ríkið við að búa sig undir stærstu áskoranir þess," segir Scientific American.

Margvísleg gagnrýni

Trump er gagnrýndur fyrir að hafa hafa á öllum stigum faraldursins farið ranga leið í átt að enduropnun hagkerfisins. Í stað þess að læra af reynslunni og reyna að ná stjórn á faraldrinum hafi forsetinn gert lítið úr honum. Trump er sagður hafa ítrekað logið að þjóðinni um þá banvænu ógn sem af faraldrinum stafar. Þá hafi forsetinn og varaforseti hans vísvitandi sleppt því að vera með grímur meðal almennings, þrátt fyrir að styðja það opinberlega. Trump er einnig fordæmdur fyrir að neita að taka nokkra einustu ábyrgð á versta faraldri Bandaríkjanna í heila öld.

Auk þess er Bandaríkjaforseti gagnrýndur fyrir að leggja til verulegan niðurskurð til fjölda opinberra stofnana sem efla vísindalega kunnáttu og efla Bandaríkin fyrir áskoranir framtíðarinnar.

Kominn tími til að vísa Trump á dyr

Í niðurlagi leiðarans segir: „Þó Trump og stuðinngsmenn hans hafi reynt að hindra fólk frá því að greiða atkvæði á öruggan hátt í nóvember, hvort sem er í pósti eða í kjörklefa, er mikilvægt að við yfirstígum þær og kjósum. Það er kominn tími til að vísa Trump á dyr og kjósa Biden, sem hefur sýnt að hann fylgir gögnum og hefur vísindin að leiðarljósi."

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi