Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vill að forverar verði sóttir til saka

16.09.2020 - 08:55
epa08668655 A handout photo made available by the Presidency of Mexico shows President Andres Manuel Lopez Obrador, during a press conference at the National Palace of Mexico City, Mexico 14 September 2020. The Mexican Government will ask Israel for the extradition of Tomas Zeron, former director of the defunct Criminal Investigation Agency accused of hiding evidence and torturing witnesses in the case of the 43 missing students from Ayotnizapa.  EPA-EFE/Presidency of Mexico HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó. Mynd: EPA-EFE - Presidency of Mexico
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, vill að landsmenn fái að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort rannsaka eigi og hugsanlega sækja til saka fimm fyrrverandi forseta landsins fyrir spillingu.

Hann beindi í gær spjótum að Carlos Salinas, Ernesto Zedillo, Vicente Fox, Felipe Calderon og Enrique Pena Nieto og sagði gríðarlega misnotkun á almannafé hafa viðgengist í stjórnartíð þeirra. 

Lopez Obrador kvaðst vilja að þjóðin fengi að tjá hug sinn um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram færi samhliða þingkosningum á næsta ári. Mexíkóforseta er heimilt að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál en hæstiréttur landsins verður að leggja blessun sína yfir það.

Andstæðingar forsetans segja að hann sé með þessu að reyna að breiða yfir eigin klúður í ýmsum málum, - ófremdarástandi í efnahagsmálum, baráttunni við glæpagengi og kórónuveirufaraldurinn.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV