
Vilja íbúakosningu um skipulagið á Oddeyri
Að hámarki 7 hæða hús
Fyrir tæpu ári voru kynntar hugmyndir um allt að 11 hæða hús á svæðinu. Þær hugmyndir hlutu mikla gagnrýni. Í nýrri auglýsingu hefur verið komið til móts við athugasemdir um hæð bygginga með því að takmarka hæð þeirra við 25 metra yfir sjávarmáli. Það þýðir að hámarki 7 hæða hús.
Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi sínum í gær þar sem tillagan var samþykkt með níu atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa VG. Fulltrúi Miðflokksins sat hjá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu tillöguna en létu einnig bóka að aðalskipulagsbreytingin verði ekki afgreitt nema að undangenginni íbúakosningu.
„Auðvitað heyrst mest í þeim sem eru á móti“
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, að málið sé tilvalið í íbúakosningu. „Það er bara ábyrðaratrið fyrir okkur að spyrja bæjarbúa út í þetta þar sem þessar hugmyndir voru ekki komnar fram þegar við sem sitjum í bæjarstjórn vorum kjörin. Ég held að með því að kanna vilja bæjarbúa í þessu máli getum við í framhaldinu haldið uppi málefnalegri umræðu,“ segir Gunnar.
Hann segir erfitt að meta það fyrirfram hvar bæjarbúar standi í málinu. „Það er ómögulegt að segja. Auðvitað heyrst mest í þeim sem eru á móti þessu, ég tek eftir því á Fésbókinni. Þar heyrst lítið í þeim sem eru sammála þessu.“
Umræddur reitur afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri sem nú er að mestu athafnasvæði, fyrir utan eina einbýlishúsalóð.
Hvað tekur við?
Nú þegar bæjarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu fer málið til Skipulagsstofnunar til athugunar og að því loknu verður tillagan auglýst og kynnt í að lágmarki sex vikur áður en skipulagsráð og bæjarstjórn taka hana aftur til umfjöllunar.
