Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Víkingarnir voru ekki bara ljóshærðir Skandinavar

16.09.2020 - 22:12
Strong angry Viking on his ship
 Mynd: iStockphoto
Niðurstöður nýrrar og umfangsmikillar rannsóknar benda til þess staðalímyndin um að víkingarnir hafi að mestu leyti verið ljóshærðir Skandinvar eigi ekki við rök að styðjast. Íslenskur fornleifafræðingur sem tók þátt í rannsókninni segir hana varpa ljósi á að víkingarnir voru mun fjölbreyttari hópur en áður var talið.

Grein vísindamannanna birtist í vísindaritinu Nature og hefur vakið mikla athygli. Enda hafa víkingar ósjaldan verið sýndir með ljósa lokka í afþreyinga-geiranum. Nægir þar að nefna sögupersónurnar í sjónvarpsþáttunum Vikings og Þór þrumuguð úr Avengers-myndunum frá Marvel.

Íslensk sýni notuð í rannsókninni

Sýni frá Hofstöðum í Mývatnssveit, Ingiríðarstöðum í Suður-Þingeyjasýslu og Hringsdal á Vestfjörðum voru notuð í rannsókninni sem Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur, tók þátt í.  Alls voru rannsökuð sýni úr 442 beinum í 12 löndum.

Hildur segir að þau hafi getað sýnt að á Hofstöðum hafi verið fjölskylda, kona og börnin hennar tvö - dóttir og sonur. „Dóttirin er greftruð í garðinum en móðirin og sonurinn hafa verið grafinn annars staðar fyrst en síðar verið flutt yfir í garðinn.“ Hún segir ekki vitað af hverju mæðginin hafi fyrst verið grafin á öðrum stað.

Rannsóknin er með þeim stærstu sem gerð hefur verið með þessum hætti, að greina erfðaefni í mannabeinum á mjög stóru svæði.  Lögð hafi verið mikil áhersla á Skandinavíu. Hildur segir margt hafa komið á óvart og litlar sögur hér og þar. Til að mynda hafi komið í ljós að einstaklingur sem lá grafinn í fjöldagröf í Oxford á Englandi var náskyldur öðrum sem fannst í Danmörku. „Þeir voru jafnvel hálfbræður eða afi og afabarn.“

Víkingarnir fjölbreyttur hópur

Stóru fréttirnar séu þær að niðurstöðurnar benda til þess að það hafi ekki bara verið hugmyndir og hlutir sem ferðuðust frá Suður-Evrópu til Skandinavíu heldur líka fólk.  „Og það er miklu meira um það að verið sé flytja fólk frá Suður-Evrópu til Skandinavíu en öfugt.“   

Í umfjöllun Science Magazine um rannsóknina kemur fram að niðurstöðurnar bendi til þess að það hafi verið frekar starfslýsing að vera víkingur frekar en að vera tengt uppruna fólks. 

Og að víkingarnir hafi verið mun dökkhærðari en þeir sem búi nú á þessum slóðum. Þannig hafi engin erfðaefni sem rekja megi til Skandinavíu fundist í gröfum víkinga á Orkneyjum en erfðaefni úr fólki sem var grafið í Skandinavíu sýndi að það átti írska og skoska foreldra.

„Einstakur tími“

„Víkingarnir voru ekki hreinir Skandinavar. Frá lokum járnaldar og inn á víkingaöldina kemur mikið af erfðaefni frá Suður-Evrópu og Asíu. Og það þýðir að fæstir af víkingunum voru ljóshærðir,“ segir Esker Willerslev í samtali við DR en hann fór fyrir rannsókninni hjá háskólanum í Kaupmannahöfn.

Hann telur að nú sé hægt að binda enda á þá umræðuna hvort víkingaöldin eigi skilið þá nafnbót. „Víkingarnir ferðuðust  lengra, voru með mikið af suður-evrópsku erfðaefni og voru í miklu meiri tengslum við umheiminn en bændasamfélagið á sama tíma.“  Þetta hafi verið einstakur tími þar sem víkingarnir skáru sig úr, ekki síst vegna sjóferða sinna.

Danir til Englands - Norðmenn til Íslands

Willerslev segir rannsóknina líka varpa nýju ljósi á þá mýtu að víkingarnir á Norðurlöndunum hafi verið sem ein heild.  „Niðurstöðurnar benda til þess að það hafi ekki verið mikil samskipti þarna á milli. Á meðan Danir ferðuðust aðallega til Englands fóru Svíar til Eystrasaltslandanna og Norðmenn til Íslands og Grænlands.“

Steve Ashby hjá háskólanum í York segir í samtali við Guardian að rannsóknin staðfesti það sem lengi hafi verið grunað um ferðir og viðskipti á víkingaöldinni. „Það er magnað sjá hvernig erfðaefni frá Suður-Evrópu og Asíu flæðir þarna um og þetta kemur heim og saman við hugmyndir um þessi miklu tengsl milli landsvæðanna.“

Leiðrétting: Í upphaflegri frétt var talað um Balkanskaga en þar átti að standa Eystrasaltslönd.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV