Topp aðstæður þegar Guðni bætti Íslandsmetið

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Topp aðstæður þegar Guðni bætti Íslandsmetið

16.09.2020 - 18:27
„Ég var bara að kasta ógeðslega vel og það voru geggjaðar aðstæður, það tvennt endar bara á einn veg,“ sagði Guðni Valur Guðnason sem bætti síðdegis í dag Íslandsmetið í kringlukasti á Haustkastmóti ÍR í Laugardalnum.

Guðni Valur kastaði kringlunni 69,35 metra og bætti um leið 31 árs gamalt Íslandsmet í greininni. Hann segir að aðstæður hafi verið virkilega góðar í Laugardalnum.

„Það er vindur, örlítill hliðarvindur, svo eru tré hérna sem eru svona tuttugu metrar sem gerir það að við finnum ekki fyrir vindinum fyrr en kringlan er komin svona átta metra upp í loftið sem hjálpar henni að svífa svona fallega áfram,“ sagði Guðni í viðtali eftir Íslandsmetið.

Fyrir átti Guðni Valur 65,53 metra frá árinu 2018 og var hann því að bæta sig um rétt tæpa fjóra metra. Guðni hefur verið að glíma við meiðsli síðustu mánuði og því lítið getað keppt í sumar. Hann fór hins vegar að komast af stað aftur fyrir nokkrum vikum og fór að kasta yfir 60 metra. Hann segir kórónuveirufaraldurinn lítið hafa skemmt fyrir sér, aðallega hafi meiðslin verið að því.

„Covid skemmdi ekki neitt, það var bara meiðslavesen. Þegar Covid skall á þá var maður bara að kasta í snjónum og harka þetta af sér. Þegar aðeins létti til þá var maður bara meiddur og gat ekki kastað fyrr en fyrir einhverjum átta viku,“ sagði Guðni.

Kastið hjá Guðna í dag setur hann á meðal fremstu kringlukastari í heiminum í ár en árangurinn er sá fimmti besti í heiminum ár. Guðni keppti á Ólympíuleikunum árið 2016 og var með þessu kasti að gera sig mjög líklegan til þess að verða á meðal keppenda á þeim næstu sem fram fara í Tókýó 2021. Lágmarkið fyrir Tókýó 2021 er 66 metrar og er Guðni Valur því vel yfir því. Því miður þá var lokað fyrir lágmörkin fyrr á árinu en glugginn opnar aftur 1. desember næstkomandi.