Töluvert rask fylgir lagning Hólasandslínu í Eyjafirði

16.09.2020 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdir við lagningu Hólasandslínu í Eyjafirði koma til með að hafa töluvert rask í för með sér á framkvæmdatíma. Þungi framkvæmda á svæðinu verður á næsta ári en línan mun stórauka raforkuöryggi í Eyjafirði.

Línan í jörð í Eyjafirði

Hólasandslína þrjú er um 70 kílómetra háspennulína sem fer um tæplega 50 jarðir frá Hólasandi til Akureyrar. Þannig liggur línan um jarðir í Laxárdal, Reykjadal, Bárðardal, Fnjóskadal og Eyjafirði. Línan verður að nær öllu leyti lögð í jörð í Eyjafirði eða frá Bíldsárskarði, undir Eyjafjarðará, og yfir í spennuvirki Landsnets við Rangárvelli. Daníel Scheving Hallgrímsson, verkefnastjóri segir undirbúning þegar hafinn.

„Það má nú eiginlega segja að framkvæmdir séu hafnar, það er búið að leggja ídráttarrör í Eyjafjarðaránni, það var gert í fyrra og eins og staðan er núna er verið að bjóða út ýmsa þætti framkvæmdarinnar,“ segir Daníel.

Allt að 20 metra röskunarsvæði

Lagning línunnar mun valda töluverðu raski en strengir verða lagðir í tvo aðskilda skurði með þjónustuslóð á milli. Þá þarf að takmarka landnotkun báðum megin strengja á svæði sem getur orðið allt að 20 metra breitt. 

„Þessu fylgir náttúrulega talsvert rask, þetta verða tvö strengsett og það þarf að grafa náttúrlag fyrir þessu og setja viðeigandi sand sem að leiðir varma og tryggir líftíma stengjanna. Þetta verður allt að 12 til 20 metra breitt röskunarsvæði.“

Línan mikilvæg atvinnuþróun og uppbyggingu á Akureyri

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa ítrekað bent á að ótrygg raforka standi atvinnuþróun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja þar fyrir þrifum. Bygging Hólasandslínu frá Kröflu til Akureyrar og endurnýjun Blöndulínu vestan frá Blönduvirkjun, er ætlað að leysa þennan vanda.

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi