Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tólf utan sóttkvíar voru með mikið magn af veirunni

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, óttast að smitin í dag séu upphafið að nýrri bylgju sem verði jafnvel meiri en önnur bylgjan sem hefur verið í gangi síðan í lok júlí. Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði, segir að það ætti að skýrast á næstu dögum hvort dagurinn í dag sé frávik eða byrjunin á einhverju öðru. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort hert verður aftur á samkomutakmörkunum.

Alls greindust 13 ný innanlandssmit í gær og aðeins einn þeirra var þegar í sóttkví.  Þetta er mesti fjöldi smita á einum degi frá því fyrir verslunarmannahelgi. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir margt benda til þess að þetta geti verið upphafið að nýrri bylgju sem geti jafnvel orðið meiri en önnur bylgja. „Þeir tólf sem greindust utan sóttkvíar voru með mikið magn af veirunni, þeir eru ótengdir og út um allt í samfélaginu.  Mér finnst því mjög líklegt að þetta sé dreift.“

Kári bendir á að venjulega sé fólk með mesta magnið af veirunni tveimur til þremur dögum áður en það sýni einkenni. Þannig að þessir tólf voru mögulega með meira magn af veirunni einum til tveimur dögum áður en þeir fóru í sýnatöku. „Og svo má ekki gleyma því að helmingurinn af þeim sem smitast er nánast einkennalaus.“

Hann telur ekki miklar líkur á að dagurinn í dag sé frávik. Þetta séu einfaldlega of margt fólk sem sé of víða.  Því ætti að bregðast hratt við en slaka á klónni um leið og menn sjá vísbendingar um að tekist hafi að ná tökum á þessu. „En okkar hlutverk hjá Íslenskri erfðagreiningu er fyrst og fremst að safna gögnum sem yfirvöld geta dregið ályktanir sínar af.“

Í síðustu spá, sem birt var á vefnum covid.hi.is, var gert ráð fyrir því að fjöldi nýgreindra smita yrði á bilinu 1-4 á hverjum degi næstu þrjár vikur. Þau gætu orðið allt að 8 þótt það væri ólíklegt.

Thor Aseplund, prófessor í líftölufræði, viðurkennir að þetta hafi vissulega verið há tala sem birtist landsmönnum í morgun en það geti alveg komið svona dagur þar sem safnist saman mörg smit á einum degi. Nú verði að bíða og sjá næstu daga hver framvindan verði; hvort þetta sé einstakt tilvik eða ekki. 

Hann nefnir sömuleiðis að því hafi verið haldið fram að veiran geti hreinlega dormað og að einhver af þessum smitum sem komu fram í dag séu afleiðingar af smitum sem voru fyrir hálfum mánuði.  „Og þar kemur erfðafræðin sterk inn því hún getur sagt okkur hvort þetta sé sama afbrigði eða ekki.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV