„Þurfum að nýta þessa leiki hérna heima vel“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

„Þurfum að nýta þessa leiki hérna heima vel“

16.09.2020 - 11:23
Allir leikmenn íslenska landsliðshópsins eru heilir fyrir leikinn gegn Lettlandi í undankeppni EM á morgun. Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði og Jón Þór Hauksson þjálfari liðsins sátu fyrir svörum á blaðamannafundi liðsins í hádeginu.

Ísland og Svíþjóð eru bæði með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í F-riðli. Aðeins eitt lið fer beint á EM, þrjú lið með bestan árangur í 2. sæti í undankeppninni komast líka beint á EM en önnur lið sem lenda í 2. sæti í sínum riðli fara í sex liða umspil um þrjú síðustu sætin á EM.

Spurður, sagði Jón Þór, að allir leikmenn liðsins væru heilir. „Dagný [Brynjarsdóttir] er byrjuð að æfa og það eru allir leikmenn í toppstandi. Það er mikil orka í hópnum og frábær andi," sagði Jón Þór.

Sara Björk sagðist spennt að sjá ungu leikmennina í hópnum spila á morgun. „Þær líta vel út og hafa staðið sig vel í deildinni heima. Það er gaman að sjá þessar ungu stelpur koma inn, fullar stjálfstrausts og þær vilja spila. Ég er ótrúlega spennt að sjá þær á morgun," sagði Sara.

Ísland sigraði Lettland 6-0 í síðasta leik liðanna í október í fyrra. Íslenska liðiði mætir svo því sænska á þriðjudag. Jón Þór var spurður hvort mikilvægt væri að byrja á leiknum gegn Lettum eftir svona langt hlé. „Þessi leikur gefur þrjú stig eins og allir aðrir. Okkar markmið er að komast til Englands og það er mikilvægt að taka eins mörg stig og hugsast getur á heimavelli. Það er líka frábært að vera komin saman aftur og geta byrjað að spila aftur. Við erum bjartsýn fyrir leikinn á morgun,“ sagði Jón Þór.

Íslenska liðið endar undankeppnina á þremur útileikjum í röð. Jón Þór segir það ekki ákjósanlegt. „En við þurfum að nýta þessa leiki hérna heima vel. Eins og málin hafa þróast í heiminum þá endar þetta svona. Við erum með gríðarlega sterka karaktera og reynslu í hópnum til að takast á við ólíkar aðstæður og ég held að þetta hafi ekki neikvæð áhrif á okkar frammistöðu í riðlinum,“ sagði Jón Þór.

Leikur Íslands og Lettlands er annað kvöld klukkan 18:45. Leikurinn er sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 sport sem er með sýningarréttinn.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Glódís Perla: „Ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni“