Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Þeir sem mest þrýsta á mig að hætta eru í felum“

Mynd: Grímsfilm / Ómar

„Þeir sem mest þrýsta á mig að hætta eru í felum“

16.09.2020 - 09:11

Höfundar

Árið 2006, þegar bygging Kárahnjúkavirkjunar var í fullum gangi, bauð Ómar Ragnarsson, að eigin frumkvæði, upp á útsýnisferðir yfir landið sem fór undir virkjunarlónið. Ómar sagði þá sem hefðu horn í síðu hans vega að honum og hóta úr launsátri.

Ómar Ragnarsson er áttræður í dag á degi íslenskrar náttúru og af því tilefni er heimildarmyndin Ómar á dagskrá RÚV í kvöld. Myndin fjallar um baráttu hans gegn virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka. En hvað var það sem knúði hann áfram? „Upplýsing, upplýsing. Þúsundir Íslendinga hafa farið í boðsferðir þar sem þau að vita allt um aðra hliðina en mjög lítið um hina. Mig langar að veita upplýsingar um báðar hliðarnar,“ segir Ómar. „Ég get reyndar farið með mjög fáa í einu, en ég fer með eins marga og ég get. Það verður stórtap á þessu, en ég fer eins langt og ég kemst án þess að verða gjaldþrota.“

En það voru ekki allir hrifnir af þessari uppfræðslu Ómars á sínum tíma. Hann varð var við ónot og illt umtal en vissi ekki hvaðan það kom. „Ég veit það ekki, þeir eru svo mikið í felum. Þeir sem mest þrýsta á mig að hætta eru í felum. Þeir leka til vina minna í gegn um trúnaðarsamtöl hvað ég muni hafa vont af því að halda áfram. Ég sé að taka áhættu sem eigi eftir að skaða mig. En ég fæ aldrei að vita hverjir þetta eru. Ég veit ekki hverjir andstæðingar mínir eru, en þeir eru þarna úti og þeir eru býsna iðnir.“

Hvers vegna er hann þá að standa í þessari baráttu? „Ég er byrjaður á þessu, byrjaði að fjalla um landið og virkjanirnar fyrir 30 árum og nú, ég er 66 ára, á ég eftir fjögur ár kannski. Ég var einu sinni í frjálsum íþróttum og 400 metra hlaup var skemmtilegasta greinin. Þó að maður komi út úr beygjunni og sé gjörsamlega búinn, þá er fyrir öllu að síðustu 100 metrarnir, og síðustu 20, séu góðir. Það er það sem ég er að gera.“

Heimildarmyndin Ómar eftir Angeliku Andrees og Sigurð Grímsson er á RÚV í kvöld kl. 20.35.

Tengdar fréttir

Innlent

Von á aðgerðaáætlun vegna afleiðinga loftslagsbreytinga

Umhverfismál

Íslensk náttúra breytist en ferst ekki

Mannlíf

Íslensk birta og náttúra eftirsótt í Hollywood

Umhverfismál

Verðlaunaðir á degi íslenskrar náttúru