Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Stór tíðindi í flóttamannapólitík í Evrópu“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / Eggert Þór Jónsson
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins,segir það stórtíðindi að afnema eigi Dyflinarreglugerðina. Verði breytingarnar samþykktar sé von á umbyltingu í móttökukerfi flóttamanna í Evrópu. 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að Dyflinnarreglugerðinni verði skipt út fyrir nýtt evrópskt kerfi fyrir flóttamenn og hælisleitendur sem leita til Evrópu. Búist er við því að breytingarnar verði kynntar síðar í mánuðinum. Þær þarfnast þó samþykkis allra aðildaríkja, sem eru síður en svo einhuga um þessi mál. 

„Þetta eru auðvitað stór tíðindi í flóttamannapólitík í Evrópu enda er forseti framkvæmdastjórnar ESB þarna að boða umbyltingu á móttökukerfi flóttamanna í Evrópu,“ segir Rósa Björk. 

„Það er greinilegt að Ursula Von Der Leyen vill breyta kerfinu til að mæta því álagi sem að Evrópuríki sunnar í Evrópu hafa þurft að glíma við og er með þessu að biðla til Evrópuríkjanna í norðri að axla meiri ábyrgð.“

Samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni geta ríki vísað fólki sem sækir um alþjóðlega vernd úr landi hafi það þegar sótt um vernd í öðru ríki innan Schengen-svæðisins. Á grundvelli reglugerðarinnar hafa íslensk stjórnvöld  vísað fjölda hælisleitenda til annarra Evrópulanda.

Hvaða breytingar gæti þetta haft í för með sér fyrir afgreiðslu mála hér á landi?

„Þá er alla vega ekki hægt að skýla sér á bakvið Dyflinnarreglugerðina og beita henni með sama mæli og hingað til,“ segir Rósa Björk. 

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, segir að komi til breytinganna þurfi að hanna allt íslenska kerfið upp á nýtt.

„Það þarf ekki að vera að þetta hefði einhverjar efnislegar þýðingar fyrir Ísland en auðvitað einhverjar kerfislegar þýðingar. Það þyrfti þá að hanna kerfin okkar hérna upp á nýtt og smyrja þá vél alla ef það væri einhver bylting í kerfinu sem slíku. “

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV