Skima 500 í HÍ - smit greinst í fjórum byggingum

16.09.2020 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Tveir starfsmenn Háskóla Íslands voru meðal þeirra þrettán sem greindust með kórónuveiruna í gær, annar í aðalbyggingu og hinn á skrifstofu í Odda.

Undanfarna daga hafa fjórir til fimm greinst sem tengjast Háskóla Íslands. Íslensk erfðagreining hefur ákveðið að bjóða starfsmönnum og nemendum skólans í skimun. „Til þess að kortleggja málið betur og ná utan um það. Smit hafa verið að koma upp hjá okkur í fjórum mismunandi byggingum og það er bara nauðsynlegt að átta sig betur á stöðunni,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor. Til að byrja með verði tekin 500 sýni í tengslum við skólann. Hægt verður að bóka tíma í dag.

Jón Atli vill sérstaklega beina til þeirra sem hafa verið í Aðalbyggingu, Setbergi, Háskólatorgi og í Odda að fara í skimun. „Þar sem smit hafa komið upp. Svo viljum við að sem flestir geti nýtt sér þetta.“

Hefur starfsfólkið sem hefur greinst verið í samskiptum við nemendur? „Við vitum það ekki alveg. Sum af þessum smitum hafa verið í stjórnsýslu skólans og þá í minni samskiptum við nemendur. Svo var smit í Hámu en það er búið að fullvissa okkur um að viðskiptavinir Hámu á Háskólatorgi þurfi ekki að hafa áhyggjur vegna þess að þar var sóttvarna gætt. En síðan veit ég ekki um þessi nýjustu smit hvort að það hafi verið samskipti við nemendur,“ segir Jón Atli. Öryggisnefnd háskólans fer yfir það núna.

Sóttvarnalæknir sagði í hádegisfréttum að hann hefði áhyggjur af því að aðeins einn af þrettán sem greindust í gær hafi verið í sóttkví. Hann minnti á einstaklingsbundnar sóttvarnir og að fólk haldi sig heima finni það fyrir einkennum. Ekki hafa greinst jafn mörg innanlandssmit á einum degi síðan eftir verslunarmannahelgi, eða í byrjun ágúst. Þá var önnur bylgja faraldursins hér á landi að ná hámarki.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi