Nokkuð algengt meðal ungs fólks
Sjálfsskaði er nokkuð algengur meðal ungs fólks hér á landi en samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er talið að á bilinu 10 til 20 prósent ungmenna skaði sig einhvern tíma viljandi. Algengast er að fólk í þessari stöðu skeri sig. Guðrún Katrín Gunnarsdóttir 21 árs skaðaði sig mjög alvarlega árum saman.
„Ég lenti í áfalli þarna þegar ég var fjórtán ára sem að ég sagði engum frá og það var bara of sárt að bera það ein, þannig að ég ákvað að fara þessa leið. Það er náttúrlega hægt að gera allskonar, ég skar mig, svo er hægt að brenna sig og það er ýmislegt hægt að gera, mis gáfulegt,“ segir Guðrún.
Segir myndbirtinguna hjálpa sér og öðrum
Hún leitaði sér hjálpar og hefur ekki skaðað sig í rúma fjóra mánuði. Hún hvetur fólk í sömu stöðu til að leita sér hjálpar. Þá segir hún myndbirtinguna hafa hjálpað sér og öðrum.
„Ég byrjaði á því að segja fólkinu mínu frá þessu, sem var mér næst. Þaðan fór ég til lækna og endaði upp á dagdeild geðdeildar þar sem ég er að fá hjálp núna. Það er margir sem að hafa verið að skaða sjálfan sig sem að hafa sent mér skilaboð og sagt sína sögu. Það er náttúrulega bara frábært að fólk sé að þora að stíga fram.“
Geðlæknir segir mikilvægt að fólk leiti sér aðstoðar
Jón Áki Jensson, geðlæknir sem meðhöndlað hefur fólk sem stundar sjálfskaða segir mikilvægt að því sé ekki leynt. Sjálfsskaði geti verið hættulegur.
„Í fyrsta lagi myndi ég alltaf ráðleggja fólki að opna inná þetta og ef það eru nánir aðstandendur sem að maður treystir þessu fyrir eða þessari umræu þá myndi maður mæla með því. Í þeim tilvikum þar sem þeir eru kannski ekki til staðar eða það er ekki möguleiki þá myndi maður mæla með t.d Rauða krossinum, hjálparsímanum þar, netspjallinu eða jafnvel Pieta samtökunum,“ segir Jón.
Færsla Guðrúnar
Hjálp við sjálfsskaða er hægt sækja til heilsugæslu, bráðamóttöku, í hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða hjá Barna og unglingageðdeild í síma 543-4300