Sara Björk: „Við þurfum á þeim að halda“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sara Björk: „Við þurfum á þeim að halda“

16.09.2020 - 12:39
Sveindís Jane Jónsdóttir og Barbára Sól Gísladóttir eru nýliðar í íslenska landsliðshópnum sem mætir Lettlandi á morgun í undankeppni EM. Landsliðsfyrirliðinn er hæstánægð með nýliðana og segir liðið þurfa á þeim að halda.

Sveindís Jane, sem spilar með Breiðabliki, og Barbára, leikmaður Selfoss, hafa spilað vel með liðum sínum í sumar. Sveindís er, ásamt þremur öðrum, markahæst í deildinni með 12 mörk. Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði er hæstánægð með þær nýju.

„Þær líta vel út og hafa staðið sig vel heima í deildinni. Hópurinn lítur bara ótrúlega vel út og það er gaman að sjá þessar ungu stelpur koma inn, fullar sjálfstrausts, og þær vilja spila. Ég er ótrúlega spennt að sjá þær á morgun. Það er ótrúlega jákvætt að fá þessar ungu stelpur inn og við þurfum á þeim að halda,“ sagði Sara Björk á blaðamannafundi íslenska liðsins í hádeginu.

Ísland og Svíþjóð eru bæði með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í F-riðli. Aðeins eitt lið fer beint á EM, þrjú lið með bestan árangur í 2. sæti í undankeppninni komast líka beint á EM en önnur lið sem lenda í 2. sæti í sínum riðli fara í sex liða umspil um þrjú síðustu sætin á EM. Ísland mætir Lettlandi á Laugardalsvelli á morgun og Svíþjóð á þriðjudag, sömuleiðis á heimavelli. Þá eru þrír síðustu leikir liðsins í undankeppninni, sem lýkur 1. desember, útileikir.

Leikur Íslands og Lettlands í undankeppni hefst klukkan 18:45 á morgun og er sýndur á Stöð 2 sport sem er með sjónvarpsréttinn.