Sá glaðlegar myndir en ekki afskræmingu af Jesú

16.09.2020 - 20:22
Mynd: Kastljós / RÚV
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup þjóðkirkjunnar, segir það ekki hafa verið ætlunin að valda sársauka hjá fólki með umdeildri auglýsingaherferð fyrir sunnudagaskóla kirkjunnar. „Þegar ég sá þessar myndir sá ég fallegar, glaðlegar myndir en ekki endilega einhverja afskræmingu af Jesú.“ Hún bað sjálf um að myndin yrði fjarlægð af Facebook-síðu kirkjunnar „af því hún særir fólk.“

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. 

Auglýsingaherferð kirkjunnar fyrir sunnudagaskóla hennar hefur vakið mikið umtal og athygli. Þar virðist Jesús vera sýndur með brjóst og andlitsfarða og tilgangurinn sagður vera að fagna fjölbreytileika mannlífsins.  Auglýsingin er enn á strætisvagni en hefur verið fjarlægð af Facebook-síðu kirkjunnar.

Agnes segir að það hafi ekki verið ætlunin að valda sársauka hjá fólki. „Flestir sáu Jesú þarna og það var leitt að svo skyldi vera. Auglýsingin sjálf fjallar um það sem við í kirkjunni höfum verið að leggja áherslu á.“

Hún viðurkennir að þau hefðu mögulega getað séð fyrir að myndin færi fyrir brjóstið á einhverjum. „En maður sér ekki alla hluti fyrir.“  Kirkjan vilji ekki eingöngu vera farþegi á skútunni heldur háseti og leggja eitthvað af mörkum.

Agnes segir auglýsinguna vera hluta af stærra verki og þarna sjáist í raun 1/8 af heildarmyndinni. Myndirnar séu meðal annars byggðar á versi úr lagi frá sunnudagaskólanum og versi úr Biblíunni. „Þegar ég sá þessar myndir sá ég fallegar og glaðlegar myndir en ekki endilega einhverja afskræmingu af Jesús.“

Agnes harmar að fólk sem ann sinni kirkju, skyldi verða svona sárt og það sé hennar harmur í þessu máli. Mögulega hafi kappið verið meira en forsjáin en ætlunin hafi aldrei verið að særa fólk. „Kannski voru það mistök að sjá það ekki fyrir að myndin skyldi vera túlkuð sem mynd af Jesú og væri svona glannaleg. “

Hægt er að horfa á viðtalið í heild í spilaranum hér að ofan. Þar ræðir Agnes einnig mál egypsku fjölskyldunnar sem til stendur að vísa úr landi. Biskupar þjóðkirkjunnar hafa hvatt stjórnvöld til að leyfa fjölskyldunni að vera. „Kirkjan hlýtur að skipta sér af öllu sem manninum kemur við, “ segir Agnes sem telur að reglurnar varðandi flóttamenn þurfi að vera skilvirkari og að tímaramminn sé virtur.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi