Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óvissa um þátttöku lífeyrissjóða í hlutafjárútboðinu

16.09.2020 - 07:32
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hlutafjárútboð Icelandair Group hefst í dag klukkan níu og lýkur klukkan fjögur á morgun. Stefnt er að því að safna allt að tuttugu og þremur milljörðum króna verði eftirspurnin næg og er verðið króna á hlut. Niðurstaðan útboðsins verður kynnt á föstudaginn.

Íslandsbanki og Landsbanki hafa gert samkomulag við félagið um að kaupa nýtt hlutafé að upphæð allt að sex milljörðum króna hvor seljist ekki nægt hlutafé í útboðinu.

Mikil óvissa er um þátttöku stærstu lífeyrissjóðanna um þátttöku í hlutafjárútboðinu.  Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum sagði í Speglinum að um sé að ræða fjárfestingu í félagi í rekstrarvanda og að um það gildi annað lögmál en þegar markaður er í eðlilegu ástandi. Málið geti horft öðruvísi við stórum og áhættusæknum fjárfestum sagði Ásgeir Brynjar en hefðbundnum fjárfestum. Icelandair hafi þegar fengið mikla aðstoð frá því opinbera. Erlendir áhættusjóðir geti séð möguleika í því að kaupa hlut í félagi sem á í vanda vægu verði og selja svo aftur þegar kórónuveirufaraldurinn dvínar.

Í Markaðnum í dag kemur fram að stjórnir fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins, Lífeyrissjóðs verslunarmanna, LST, Gildis og Birtu hafi boðað til fundar í dag og snemma á morgun til að taka endanlega ákvörðun um þáttöku í útboðinu. Talsverð gjá sé milli atvinnurekenda í stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna og fulltrúa VR um aðkomu sjóðsins.

Útlit er fyrir að stærsti hluthafinn í Icelandair, Par Capital, taki ekki þátt í hlutafjárútboðinu. Aðspurður í Kastljósi hvaða skilaboð það sendi íslenskum fjárfestum sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að það hefði verið mikil viðurkenning fyrir Icelandair að fá Par inn sem fjárfesti í fyrra. Nú væri sá fjárfestir í erfiðri stöðu þar sem hann hefur fjárfest mikið í flugrekstri.