Nýtt frá Valdimar x Úlfur Eldjárn, Hjaltalín og Krumma

Mynd: Björn Árnason / Björn Árnason

Nýtt frá Valdimar x Úlfur Eldjárn, Hjaltalín og Krumma

16.09.2020 - 14:00

Höfundar

Vikan byrjar með látum í íslenskri tónlistarútgáfu. Undiraldan býður upp á frískandi og nýhristan kokteil frá Valdimar og Úlfi Eldjárn, Hjaltalín, Krumma Björgvins, Geir Ólafs og fleirum.

Valdimar x Úlfur Eldjárn - Upphaf

Lagið Upphaf er unnið fyrir sýningu Þjóðleikhússins með sama nafni sem verður frumsýnt um helgina. Valdimar Guðmundsson og Úlfur Eldjárn sömdu lagið en þeim til aðstoðar við hljóðfæraleik eru Helgi Svavar Helgason á trommur og Kjartan Hákonarson á trompet.


Krummi - Frozen Teardrops

Kántríbylgjan heldur áfram að herja á landsmenn en tónlistarmaðurinn Krummi sendi frá sér á dögunum útlagakántrílagið Frozen Teardrops. Textinn fjallar að sögn Krumma um utangarðsfólk á götunni sem skortir skilning, ást og umhyggju.


Hjaltalín - Chestmark

Hljómsveitin Hjaltalín sem gaf út samnefnda plötu sína í ár með stórsmellinum Baronesse hefur sent frá sér upphafslag plötunnar Chestmark sem nýjan söngul á arabískum nótum þar sem Högni Egilsson fer með aðalsönghlutverkið.


Pálmar - Hvítur hestur

Hvítur hestur er afkvæmi þriggja æskuvina frá Akureyri, þeirra Þorgils Gíslasonar (Togga Nolem), Andrési Vilhjálmssyni knattspyrnuhetju og Geir Sigurðssyni hárgreiðslumeistara. Hljómsveitin Pálmar er nýtekin saman á ný. Hún var stofnuð í kjallara á Akureyri seint á síðustu öld í góðu gríni og starfaði i tvö ár þangað til liðsmenn fóru hver í sína áttina til að sinna öðum áhugamálum.


Tvö dónaleg haust - Ég er til

Lagið Ég er til verður að finna á plötunni Miðaldra sem Tvö dónaleg haust ætla að gefa út síðar en sveitina skipa þeir Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Tryggvi Már Gunnarsson, Stefán Gunnarsson, Skúli Magnús Þorvaldsson, Ómar Örn Magnússon og Sigfús Ólafsson.


Myrkvi - Gamechanger

Tónlistarmaðurinn Magnús Thorlacius sem kallar sig Myrkva hefur sent frá sér nýjan söngul af plötu sinn Reflections sem er væntanleg en með honum í laginu eru þeir Arnór Sigurðarson á trommur og slagverk og Sigurður Thorlacius á píanó.


Trausti Laufdal - Doktor Blús

Trausti Laufdal er tónlistarmaður og pródúser sem hefur komið víða við meðal annars í hljómsveitarinni Lokbrá og hefur einnig unnið með XXX Rottweilerhundum , Herberti Guðmundssyni , Maus og Eyþóri Inga. Hann er þessa daganna að vinna að sinni annari sólóplötu en sú fyrsta kom út árið 2013 en fór ekki víða því Trausti varð mjög veikur um það leyti. Hann segir að er umfjöllunarefni Doktor Blús sé einmitt geðheilsa og skömmin sem því fylgir að vera andlega veikur.


Geir Ólafs - There Was A Time

Jólabarnið og hjartaknúsarinn Geir Ólafsson hefur sent frá nýtt frumsamið lag og texta sem myndi sóma sér vel í Disney-mynd enda valinn maður í hverju rúmi í hljóðfæraleiknum að venju.